„Oft þegar mótlætið er mikið gerist eitthvað jákvætt“

Matthías Vilhjálmsson í leiknum í gær.
Matthías Vilhjálmsson í leiknum í gær. Unnur Karen

Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH var sáttur eftir 0:4 sigur gegn Stjörnunni á Samsung vellinum í Garðabæ í Pepsi Max deild karla í gærkvöldi. „Þetta er góð tilfinning. Mér fannst við vera fagmannlegir og spila góðan fótbolta í dag.“

„Við komumst í 2:0 og þeir fá svo rautt spjald. Við förum inn í seinni hálfleikinn með tveggja marka forystu en byrjum hann ekkert sérstaklega vel. Þetta hefði getað farið í einhverja vitleysu hjá okkur en við náðum að tækla þessa byrjun hjá okkur og eftir það var þetta aldrei í hættu. Að vinna hérna á mjög erfiðum útivelli er mjög sterkt.“

Matthías var að öðrum ólöstuðum maður leiksins. Hann skoraði tvö mörk og lagði upp eitt. „Það var kominn tími til. Það er gaman að geta spilað aðeins sem fremsti maður aftur. Ég er búinn að vera mikið á miðjunni og í dag fann ég mig vel. Ég er þannig að ég er oft góður þegar liðið spilar vel, liðið var frábært í dag og það er mjög jákvætt.“

Rauða spjaldið fór tvisvar sinnum á loft í Garðabænum í kvöld. Eggert Aron Guðmundsson leikmaður Stjörnunnar var vikið af velli fyrir ljótt brot á Guðmundi Kristjánssyni og Gunnar Nielsen fékk að líta rauða spjaldið þegar hann tók niður Emil Atlason rétt utan teigs.

„Ég sá rauða spjaldið á Stjörnuna. Gummi [Guðmundur Kristjánsson] æddi upp völlinn og hann var bara að reyna að stöðva það. Ég held að ásetningurinn hafi ekki verið til staðar en það er stórhættulegt þegar menn koma svona á fullri ferð. Hitt rauða spjaldið sá ég ekki nægilega vel, ég veit ekkert hvort það var inni í eða fyrir utan teig.“

Margir ungir leikmenn hafa fengið traustið í FH liðinu og spilað mjög vel. „Við erum á ákveðinni vegferð núna úr því sem komið var. Það eru ótrúlega margir ungir strákar að fá sénsinn hjá okkur sem er mjög jákvætt. Við erum bara að byggja til framtíðar og reyna að bæta okkar leik sem hefur ekki verið nógu stöðugur í sumar. Ég hef lært það á mínum ferli að oft þegar mótlætið er mikið gerist eitthvað jákvætt. Það er akkúrat það sem er í gangi með þessa stráka. Þetta er framtíðin hjá FH.“

mbl.is