Agla María besti leikmaður tímabilsins

Agla María Albertsdóttir fékk flest M í sumar en hún …
Agla María Albertsdóttir fékk flest M í sumar en hún hafnaði í öðru sæti í M-gjöfinni í fyrra. Eggert Jóhannesson

Agla María Albertsdóttir, 22 ára sóknarkona úr Breiðabliki, er leikmaður ársins 2021 í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, hjá Morgunblaðinu.

Agla María varð efst í M-einkunnagjöf blaðsins á tímabilinu sem lauk á sunnudaginn en hún átti frábæran leik í 6:1-sigri Breiðabliks gegn Þrótti úr Reykjavík á Kópavogsvelli og skoraði eitt mark ásamt því að leggja upp önnur þrjú fyrir liðsfélaga sína.

Fyrir lokaumferðina var Agla María með nokkuð þægilegt forskot á keppinauta sína en sóknarkonan úr Breiðabliki fékk alls 20 M. Hún endaði sem næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 12 mörk en aðeins Brenna Lovera, framherji Selfoss, skoraði meira en hún eða 13 mörk.

Þá lagði Agla María upp fjölda marka fyrir liðsfélaga sína en Blikar höfnuðu í öðru sæti deildarinnar í ár eftir að hafa orðið Íslandsmeistarar á síðustu leiktíð. Agla María hefur verið á meðal bestu leikmanna Íslandsmótsins undanfarin ár en hún varð í fjórða sæti í M-gjöf Morgunblaðsins sumarið 2019 með 16 M og í öðru sæti síðasta sumar þegar hún endaði með 17 M.

Amber Michel varð önnur

Bandaríski markvörðurinn Amber Michel sem lék með Tindastól á Sauðárkróki fékk 18 M og hafnaði í öðru sæti. Michel átti frábært sumar með liði Tindastóls og átti hvern stórleikinn á fætur öðrum í markinu. Þrátt fyrir það tókst henni ekki að koma í veg fyrir fall liðsins úr efstu deild en liðið, sem var nýliði í deildinni, hafnaði í níunda og næstneðsta sætinu.

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, leikmaður Breiðabliks, og Katherine Cousins, miðjukona úr Þrótti, fengu báðar 16 M í sumar og urðu jafnar í þriðja til fjórða sæti. Áslaug Munda lék hins vegar fimmtán leiki í sumar en Cousins lék sautján en Áslaug Munda hélt í háskólanám til Bandaríkjanna seinni part ágústmánaðar og missti því af síðustu þremur umferðunum.

Arna Sif valin oftast

Cousins stýrði miðjuspili Þróttar af mikilli yfirvegun í allt sumar en liðið, sem spáð var falli í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liða í deildinni, hafnaði í þriðja sætinu.

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, varð fimmta með 15 M en hún var besti leikmaður Akureyringa í sumar og var níu sinnum í liði umferðarinnar hjá Morgunblaðinu, oftast allra.

Natasha Anasi, fyrirliði Keflavíkur, varð sjötta með 15 M en hún átti stóran þátt í því að Keflavík hélt sæti sínu í deildinni. Keflavík, sem var nýliði líkt og Tindastóll, hafnaði í áttunda sæti deildarinnar og tryggði sæti sitt endanlega í efstu deild í lokaumferðinni.

M-uppgjör tímabilsins má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag þar sem er að finna úrvalslið ársins ásamt varamönnum og fimm bestu leikmenn í hverju liði deildarinnar samkvæmt M-gjöfinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »