„Menn eru hátt uppi“

Leikmenn Vestra fögnuðu sigri í kvöld.
Leikmenn Vestra fögnuðu sigri í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég held að hún hafi aldrei verið eins góð. Menn eru mjög hátt uppi,“ sagði Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði knattspyrnuliðs Vestra, þegar mbl.is hafði samband við hann eftir bikarsigurinn gegn Val í kvöld og spurði hvernig stemningin væri hjá leikmönnum Vestra.

Vestri sem er í 6. sæti Lengjudeildarinnar, þeirrar næstefstu á Íslandsmótinu, sló í kvöld Val út úr 8-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar með 2:1 sigri á Ísafirði en Valur varð Íslandsmeistari í fyrra. Úrslitin hljóta að teljast með þeim óvæntustu á þessu sparksumri. 

 „Það var smá stress í okkur. Kannski eðlilega. Við vissum að sjálfsögðu að þetta yrði rosalega erfiður leikur en eftir að leikurinn hófst leið okkur eins og við myndum aldrei tapa þessum leik. Það var auðvitað miklu meiri pressa á þeim heldur en okkur,“ sagði Elmar og hann sagði Vestfirðinga hafa unnið heimavinnuna. 

Brentton Muhammad varði vel undir lok uppbótartímans og Jesus Maria …
Brentton Muhammad varði vel undir lok uppbótartímans og Jesus Maria Meneses skoraði jöfnunarmark Vestra beint úr aukaspyrnu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Á mánudaginn fórum við á videófund þar sem við fengum að sjá hvernig Valsmenn spila. Þjálfararnir lögðu þennan leik frábærlega upp fyrir okkur. Þegar út í leikinn var komið var markið hjá Val blaut tuska í andlitið. Þar var sofandaháttur hjá okkur en fram að því fannst mér við ekki vera lakara liðið. Við skoruðum rétt fyrir hálfleiksflautið og það gerði mjög mikið fyrir okkur að fara inn í hálfleikinn með jafna stöðu. Í hléinu lögðu þjálfararnir síðari hálfleikinn frábærlega upp. Fyrir okkur minna liðið þarf náttúrlega allt að ganga upp til að vinna svona leiki og það gerðist í dag.“

Elmar Atli Garðarsson.
Elmar Atli Garðarsson. Ljósmynd/heimasíða Vestra.

Elmar lenti í rimmu í uppbótartímanum. Danski markahrókurinn Patrick Pedersen fékk boltann við hliðarlínuna á vellinum miðjum. Elmar togaði í peysu Danans og braut á honum. Pedersen missti stjórn á sér og sló til Elmars. Fékk Pedersen rauða spjaldið fyrir vikið hjá Ívari Orra Kristjánssyni dómara leiksins. 

„Hann fékk boltann úti við hliðarlínuna. Ég ætlaði að brjóta á honum til að stöðva sóknina hjá þeim. Ég viðurkenni það alveg. En svo snéri hann sér við og sló til mín.“

Spurður um hvort Vestri eigi sér draumaandstæðing í undanúrslitum sagði Elmar að aðalatriðið sé að fá heimaleik. „Er það ekki gott svar?“ spurði Elmar Atli á móti. Síðar í kvöld kom í ljós að honum varð að ósk sinni. Vestri fékk heimaleik gegn Víkingi Reykjavík í undanúrslitum. 

mbl.is