Vestri sló Val út úr bikarnum

Jesus Maria Meneses skoraði fyrra mark Vestra beint úr aukaspyrnu.
Jesus Maria Meneses skoraði fyrra mark Vestra beint úr aukaspyrnu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

B-deildarlið Vestra sló Íslandsmeistara Vals út í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni karla í knattspyrnu á Ísafirði í dag. 

Vestri sigraði 2:1 í leik þar sem Valur komst 1:0 yfir en staðan var 1:1 að loknum fyrri hálfleik. Vestfirðingar eru því komnir í undanúrslit keppninnar eins og Skagamenn sem unnu ÍR 3:1. 

Á ýmsu gekk í síðari hálfleik. Eftir að Vestri komst 2:1 með laglegu marki áttu Valsmenn tvö stangarskot á tveggja mínútna kafla. Heimamenn áttu einnig sín færi. Leikurinn dróst mjög á langinn því Ívar Orri Kristjánsson dómari leiksins bætti átta mínútum við venjulegan leiktíma. Þegar sjö mínútur voru liðnar af uppbótartímanum átti Rasmus Christiansen skalla sem Brenton Muhammad varði í samskeytin og þaðan fór boltinn aftur fyrir. 

Danski markahrókurinn Patrick Pedersen er á leið í leikbann. Hann missti stjórn á skapi sínu í uppbótartímanum, virtist slá til Elmars Atla Garðarssonar fyrirliða Vestra og fékk brottvísun. Elmar hafði togað í treyju Danans og fékk áminningu fyrir peysutogið.

Jóhannes Karl Guðjónsson er komin í undanúrslit með lið ÍA.
Jóhannes Karl Guðjónsson er komin í undanúrslit með lið ÍA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Í Breiðholti gerðu ÍR-ingar sér vonir um óvænt úrslit þegar c-deildarliðið komst 1:0 yfir snemma leiks. Þórður Þórðarson jafnaði með hreint frábæru marki rétt fyrir hlé og sýndi þar sambatakta. Markið gaf Skagamönnum ef til vill þann byr sem liðið þurfti á að halda og ÍA komst yfir þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. 

Úrslit: 

Vestri - Valur: 2:1

Chechu Meneses 45., Martin Montipo 62. - Tryggvi Hrafn Haraldsson 34.

ÍR - ÍA 1:3

Pétur Hrafn Friðriksson 17. -  Þórður Þorsteinn Þórðarson 45, Gísli Laxdal Unnarsson 55., Guðmundur Tyrfingsson 90.

Jón Þór Hauksson er þjálfari Vestra.
Jón Þór Hauksson er þjálfari Vestra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is