Ætlum okkur að vinna Holland

Glódís Perla Viggósdóttir er einn lykilmanna íslenska landsliðsins.
Glódís Perla Viggósdóttir er einn lykilmanna íslenska landsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður íslenska kvennalandsliðsins og leikmaður stórliðs Bayern München, segir Holland hafa tekið gífurlegum framförum frá því að hún mætti þeim fyrst fyrir sjö árum.

„Þær tóku stór skref. Ég spilaði við þær í Kórnum 2014 og við unnum þann leik. Síðan þá spiluðum við ekkert við þær fyrr en rétt fyrir EM [árið 2017, sem Holland vann svo á heimavelli] og það var þvílík breyting á liðinu.

Ég held að það snúist aðallega um fjármagn, það hefur verið settur meiri peningur í liðið og umgjörðina. Svo komu betri leikmenn upp,“ sagði Glódís Perla á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag.

Hún kvaðst mjög hrifin af hollenska liðinu og sagðist spennt fyrir því að mæta því næstkomandi þriðjudag á Laugardalsvelli, þegar Ísland leikur sinn fyrsta leik í undankeppni HM 2023.

„Það er bara ógeðslega gaman að fylgjast með þeim. Þegar þær unnu EM voru þær geggjaðar. Þær voru með skemmtilega og lúmskt ungt lið og hafa síðan þá verið að standa sig vel. Ég er mjög spennt fyrir því að fá að spila á móti þeim á heimavelli.“

Munum þurfa þessa orku

Glódís Perla vonast eftir góðum stuðningi úr stúkunni í leiknum á þriðjudaginn. „Það er alltaf mjög mikilvægt og gaman að spila fyrir framan fullt af fólki og finna stuðninginn úr stúkunni og frá þjóðinni. Það er oft talað um tólfta manninn og það er alltaf gaman þegar maður finnur fyrir þessum stuðning.

Við erum að fara að spila við eitt af bestu liðum í heimi þannig að við munum þurfa þessa orku og ég vona að fólk flykkist niður á Laugardalsvöll og styðji við okkur. Vonandi verður þetta bara hörkuleikur. Við ætlum okkur að vinna. Við setjum stefnuna hátt og tökum vel á móti öllum stuðningi í því,“ sagði hún einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert