Vona að hann breyti nógu andskoti miklu

Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari ásamt Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari ásamt Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari A-landsliðs kvenna í knattspyrnu, segir að það verði áhugavert að sjá hollenska landsliðið undir stjórn nýs þjálfara.

Sá heitir Mark Parsons og er Englendingur sem þjálfar Portland Thorns í bandarísku atvinummannadeildinni samhliða því að þjálfa hollenska liðið, sem hann tók við að loknum Ólympíuleikunum í sumar.

Á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í dag var Þorsteinn spurður hvort hann vissi eitthvað um nýja þjálfarann og hverju mætti eiga von á frá honum.

„Ég vonast eftir því að hann breyti nógu andskoti miklu. Ég er búinn að vera skoða mikið hvernig Holland hefur spilað og ég er líka búinn að skoða hvað Mark hefur verið að gera með Portland.

Hann hefur fengið stuttan undirbúning og þetta er í fyrsta sinn sem hann stýrir liðinu. Það er ekki sama leikkerfi hjá Portland og Holland er að spila þannig að það verður áhugavert að sjá hvort hann ætli að nota kerfið sitt frá Portland og færir það yfir á Holland,“ svaraði Þorsteinn.

Ísland fær Holland í heimsókn á Laugardalsvöllinn næstkomandi þriðjudag. Leikurinn er liður í undankeppni HM 2023.

mbl.is