Betri einstaklingar í Þýskalandi en meira lagt upp úr taktík í Svíþjóð

Glódís Perla Viggósdóttir leikur með stórliði Bayern München í Þýskalandi.
Glódís Perla Viggósdóttir leikur með stórliði Bayern München í Þýskalandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir gekk í síðasta mánuði til liðs við Þýskalandsmeistara Bayern München eftir fjögurra ára dvöl hjá sænsku meistaraefnunum í Rosengård.

„Ég er náttúrlega bara búin að spila þrjá leiki og finnst svolítið erfitt að meta það. En fyrsta „impression“ hjá mér er að það eru fleiri betri einstaklingar í þýsku deildinni en sænska deildin er töluvert taktískari. Liðin leggja meira upp úr taktík og eru með meiri liðspælingar. Á meðan er mjög mikið af góðum leikmönnum, góðum einstaklingum, í Þýskalandi og oft er þetta öðruvísi en ég er vön.

Þegar ég var í Svíþjóð var hitt liðið alltaf að reyna einhverja taktíska snilli, eitthvað til að verjast okkur eða skyndisækja,“ sagði Glódís Perla á Teams-fjarfundi með blaðamönnum í gær, spurð um hver munurinn væri á þýsku og sænsku deildunum.

„Ég sat á bekknum og var að horfa á fyrsta leik Bayern eftir að ég kom, sem við unnum 8:0. Þegar ég kom inn á var ekki verið að pakka öllum leikmönnum inn í teig.

Það var áfram verið að reyna eitthvað, eins og þeim væri alveg sama þó þær myndu tapa 0:10 eða 0:2, það skipti engu máli af því að þær ætluðu að reyna að skora. Það var engin taktík, þ.e. að þessi hreyfing á að vera svona og svona. Þetta var miklu opnara allt, miklu opnari leikir,“ bætti hún við.

Á fundinum var Glódís Perla einnig spurð út í muninn á umgjörðinni hjá Bayern og Rosengård. „Þetta er alveg næsta „level“ af umgjörð og örugglega bara eitt það besta sem er í boði. Við erum með okkar eigin „campus“ og æfum á geggjuðum grasvöllum.

Ég hef alltaf verið „team“ gervigras en núna er ég búin að breyta. Það er fullt af starfsmönnum og sjúkraþjálfarinn er á allt öðru stigi en ég er vön. Ég get ekki kvartað yfir neinu, þetta er eins og þetta á að vera,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert