Fáir á Íslandi sem skilja eins vel og ég út á hvað fótbolti gengur

Kári Árnason er fyrirliði Víkings.
Kári Árnason er fyrirliði Víkings. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Kári Árnason, fyrirliði Víkings úr Reykjavík, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir langan og farsælan feril þegar yfirstandandi keppnistímabili lýkur. Að því loknu tekur hann við nýju starfi, sem yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.

Kári verður 39 ára í næsta mánuði og hefur því verið afar lengi að. Hvernig tilfinning er það fyrir hann að segja skilið við knattspyrnuiðkun? „Það er svolítið erfitt náttúrlega, mjög erfitt. Ég hef verið að djöflast í hinu og þessu síðustu misseri,“ sagði hann í samtali við mbl.is þegar tilkynnt var um ráðninguna í Víkinni í dag.

Fyrir rúmum tveimur árum hafði Kári lýst yfir áhuga á því að taka við nýju starfi innan Knattspyrnusambands Íslands, yfirmanni knattspyrnumála. Þar sem hann var ennþá að spila var því ekki ætlað að verða og Arnar Þór Viðarsson tók við starfinu síðla vors árið 2019.

„Það var ekkert launungarmál að ég talaði við Guðna [Bergsson] þegar hann sat sem formaður KSÍ og bauð fram þjónustu mína í þetta hlutverk innan KSÍ. Þeir höfðu alveg tækifæri til þess að fá mig í það en þeir ætluðu að ráða í þá stöðu strax.

Það dróst en svo vita allir hvernig málin þróuðust. Ég held að ég hefði getað komið sambandinu vel að gagni fyrir en Víkingur stendur mér engu að síður næst þannig að ég ætla að reyna allt sem í mínu valdi stendur til þess að búa til samfellu í Víkinni,“ sagði Kári.

Vill tryggja hagsmuni Víkings

„Við erum á ákveðinni braut núna og við vitum allir hvernig fótboltinn er, þjálfarar eru ekkert endalaust á sama stað. Það eru einstaka dæmi um það að þeir séu í tíu ár og auðvitað vonum við að við höldum Arnari [Gunnlaugssyni aðalþjálfara] í tíu ár en það er ólíklegt, sérstaklega þegar vel gengur. Þá eru alltaf einhverjir sem vilja fá viðkomandi og bjóða gull og græna skóga,“ bætti hann við.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Kári útskýrði svo nánar hvernig hann sæi fyrir sér að hann myndi nálgast starf yfirmanns knattspyrnumála hjá Víkingi. „Ég lít svolítið á þetta þannig að ég sé að tryggja hagsmuni Víkings. Ef það kemur kannski nýr þjálfari inn og öll gildi sem Arnar er búinn að „drilla“ inn í meistaraflokk og þau bara týnast, ég vil sjá til þess að það gerist ekki.

Svo kemur maður líka að yngri flokka starfinu og reynir að búa til eins fullmótaða leikmenn og mögulegt er, þannig að þegar þeir koma upp í meistaraflokkinn séu þeir betur tilbúnir. Að þeir séu ekki bara hæfileikaríkir á boltann heldur skilji út á hvað fótbolti gengur nákvæmlega.

Ég er kannski svolítið hrokafullur að segja það en það eru fáir á Íslandi sem skilja út á hvað fótbolti gengur eins vel og ég geri. Ég vona að ég geti komið því til skila og látið gott af mér leiða í nýju starfi.“

Nýta sér vonandi hjálpina

Kári sagði að hugsunin sé á þá leið að hann muni innleiða vissa hugmyndafræði og ákveðin einkennismerki knattspyrnuiðkenda hjá Víkingi þvert á alla flokka.

„Það er hugsunin og svo vil ég sjá hvar metnaðurinn liggur hjá ungum leikmönnum sem eru kannski að fara að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki og jafnvel lengra niður. Ef það eru fyrir rosalega metnaðarfullir krakkar sem ætla sér að gera eitthvað í fótbolta þá get ég hjálpað þeim í því og vonandi nýta þeir sér þá hjálp og fara eins langt og þeir mögulega geta.“

Kári var ekki sá metnaðarfyllsti á yngri árum en skapaði …
Kári var ekki sá metnaðarfyllsti á yngri árum en skapaði sér þrátt fyrir það langan og farsælan feril í meistaraflokki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann sagði að ekki megi þó gleyma þeim iðkendum sem séu kannski ekki jafn sýnilega metnaðarfullir frá unga aldri. „Það eru kannski krakkar sem eru ekkert voðalega metnaðarfullir, ég var ekkert voðalega metnaðarfullur á þessum árum.

Það verður líka að gefa þeim tíma og þau eiga að fá alveg sömu tækifæri þó að metnaðurinn sé kannski ekki byrjaður í fimmta flokki. Þetta er fín lína sem þarf að ganga á og sjá til þess að þeir sem vilja verða framúrskarandi, að þeir fái þá aðstoð sem þeir geta fengið til þess að uppfylla möguleika sína,“ sagði Kári að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is