Ægir upp um deild – Einherji og Tindastóll niður

Ægir fór upp um deild eftir mikla spennu.
Ægir fór upp um deild eftir mikla spennu. Ljósmynd/Facebook-síða Ægis

Ægir úr Þorlákshöfn tryggði sér sæti í 2. deild karla í fótbolta með 2:1-útisigri á Hetti/Hugin í æsispennandi lokaumferð 3. deildarinnar á Egilsstöðum í dag.

Höttur/Huginn hafði þegar tryggt sér efsta sæti deildarinnar og sæti í 2. deildinni. Arilíus Óskarsson kom Ægi yfir á 13. mínútu en Manuel Garcia jafnaði fyrir Austfirðinga á 58. mínútu. Ægismenn skoruðu hinsvegar sigurmark á 69. mínútu.

KFG átti einnig möguleika á að fara upp um deild í lokaumferðinni en 4:2-sigur á Sindra í Garðabæ dugði ekki til. Gunnar Helgi Hálfdanarson kom KFG yfir á 35. mínútu og Jóhann Ólafur Jóhansson skoraði þrennu í seinni hálfleik. Sævar Gunnarsson og Ibrahim Barrie skoruðu mörk Sindra, sem hefði átt möguleika á öðru sætinu með sigri í dag, ef Ægir hefði ekki unnið fyrir austan.

KFG og Ægir enda bæði með 41 stig og með 13 mörk í plús. Ægir skoraði hinsvegar 42 mörk og KFG 37. 

Tindastóll og Einherji falla niður í 4. deild. Tindastóll tapaði á útivelli gegn KFS í hörkuleik, 4:3, í Vestmannaeyjum, og Einherji gerði markalaust jafntefli á heimavelli sínum á Vopnafirði gegn Víði. ÍH vann 2:1-sigur á Elliða á útivelli í Árbænum og hélt sér uppi á markatölu, en ÍH og Einherji enduðu bæði með 20 stig. Tindastóll endar neðstur með 18 stig. ÍH var neðst fyrir lokaumferðina í dag.

KH úr Reykjavík og Kormákur/Hvöt frá Hvammstanga og Blönduósi taka sæti Einherja og Tindastóls í 3. deildinni.

Lokastaðan í 3. deild: 

  1. Höttur/Huginn 42
  2. Ægir 41
  3. KFG 41
  4. Sindri 36
  5. Elliði 34
  6. KFS 34
  7. Dalvík/Reynir 29
  8. Víðir 29
  9. Augnablik 26
  10. ÍH 20
  11. Einherji 20
  12. Tindastóll 18
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert