Fram taplaust í gegnum tímabilið – Alexander með fernu

Kyle McLagan, sem skoraði fjórða mark Fram, með boltann í …
Kyle McLagan, sem skoraði fjórða mark Fram, með boltann í dag. Anton Logi Lúðvíksson sækir að honum. mbl.is/Arnþór

Fram kórónaði stórkostlegt tímabil í Lengjudeild karla í fótbolta, 1. deild, með því að valta yfir Aftureldingu á heimavelli, 6:1, í dag. Fram fór taplaust í gegnum tímabilið en í 22 leikjum vann Fram 18 leiki og gerði fjögur jafntefli.

Arnór Gauti Ragnarsson kom Aftureldingu óvænt yfir á 21. mínútu en við það vöknuðu Framarar. Hlynur Atli Magnússon jafnaði aðeins fjórum mínútum síðar og Alexander Már Þorláksson bætti við tveimur mörkum á 36. og 41. mínútu.

Bandaríski miðvörðurinn Kyle McLagan skoraði fjórða mark Fram á 45. mínútu og var staðan í hálfleik 4:0. Framarar voru ekki hættir því Alexander Már skoraði sitt þriðja mark á 68. mínútu og fjórða mark sitt og sjötta mark Fram á 75. mínútu.

Fjölnismenn tryggðu sér þriðja sæti deildarinnar með 1:0-útisigri á Selfossi. Viktor Andri Hafþórsson skoraði sigurmark Fjölnis á 65. mínútu.

Víkingur úr Ólafsvík fagnaði sínum öðrum sigri á tímabilinu er liðið heimsótti Grindavík og vann 4:2. Harley Willard kom Víkingi yfir á 5. mínútu en mínútu síðar jafnaði Josip Zeba. Bjartur Bjarmi Barkarson kom Víkingi aftur yfir á 29. mínútu og Kareem Isiaka bætti við þriðja markinu á 43. mínútu og voru hálfleikstölur 3:1. Gabriel Robinson minnkaði muninn fyrir Grindavík á 48. mínútu en Isiaka skoraði sitt annað mark og fjórða mark Ólafsvíkinga á 82. mínútu og þar við sat.

Þá vann Þór endurkomusigur á Þrótti á útivelli, 3:2. Kairo Edwards-John og Sam Ford komu Þrótti í 2:0 á fyrstu 12 mínútunum en Bjarni Guðjón Brynjólfsson minnkaði muninn á 15. mínútu og var staðan í hálfleik 2:1. Bjarni Guðjón skoraði sitt annað mark og annað mark Þórs á 57. mínútu og fjórum mínútum síðar skoraði Fannar Daði Malmquist Gíslason sigurmarkið. Fyrsti sigur Þórsara í níu leikjum í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert