KV fylgir Þrótti upp um deild

Leikmenn KV fagna innilega í leikslok.
Leikmenn KV fagna innilega í leikslok. Ljósmynd/Hilmar Þór

KV, Knattspyrnufélag Vesturbæjar, tryggði sér sæti í 1. deild karla í fótbolta með því að sigra Þrótt úr Vogum, 2:0, á heimavelli í lokaumferð 2. deildarinnar í dag.

Ljóst var fyrir leik að KV nægði sigur til að fylgja Þrótturum upp um deild. Patryk Hryniewicki kom KV yfir á 9. mínútu og Askur Jóhannsson bætti við öðru marki á 77. mínútu og þar við sat.

Völsungur þurfti að treysta á að KV myndi misstíga sig til að geta farið upp um deild. Húsvíkingum dugði því ekki 1:0-útisigur á Njarðvík. Argentínumaðurinn Santiago Feuillassier skoraði sigurmark Völsungs á 16. mínútu.

Þróttur endar í efsta sæti deildarinnar með 42 stig, KV í öðru með 41 og Völsungur í þriðja með 40 stig.

Fjarðabyggð og Kári falla niður í 2. deild en þau enduðu í tveimur neðstu sætunum, töluvert á eftir næstu liðum. Fjarðabyggð tapaði 0:3 fyrir Leikni F. í grannaslag fyrir austan og Kári tapaði 3:1 fyrir Magna á Grenivík.

Sæti Fjarðabyggðar og Kára í 2. deild taka Höttur/Huginn og Ægir en Ægismenn tryggðu sér annað sætið í 3. deild í dag með því að vinna Hött/Hugin á útivelli á Egilsstöðum, 2:1. Þar með sátu KFG og Sindri eftir en KFG vann leik liðanna í Garðabæ 4:2 og fékk jafnmörg stig og Ægir en sat eftir á einu marki í markatölu.

Lokastaðan í 2. deild 

  1. Þróttur V. 42
  2. KV 41
  3. Völsungur 40
  4. Magni 37
  5. KF 35
  6. Njarðvík 32
  7. Reynir S. 32
  8. ÍR 31
  9. Haukar 29
  10. Leiknir F. 24
  11. Fjarðabyggð 11
  12. Kári 9
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert