Ekki einu sinni hægt að lýsa henni

Sveindís Jane Jónsdóttir í leik Íslands og Írlands í sumar.
Sveindís Jane Jónsdóttir í leik Íslands og Írlands í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undankeppni HM í knattspyrnu kvenna er komin af stað og Ísland á verðugt verkefni fyrir höndum í fyrstu umferðinni, leik gegn Evrópumeisturum Hollands á Laugardalsvelli á þriðjudaginn.

Framherjinn Sveindís Jane Jónsdóttir gæti spilað sinn níunda A-landsleik þá en hún sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag. Hún segist eiga von á hörkuleik gegn frábæru fótboltaliði.

„Við höfum farið vel yfir þær, þekkjum þetta lið nokkuð vel. Þær voru líka á Ólympíuleiknum um daginn. Við leyfum þeim kannski að halda boltanum, en okkur líður bara vel þannig.“

Sveindís spilar með Íslendingaliðinu Kristianstad í Svíþjóð og leikur þar undir stjórn Elísabetu Gunnarsdóttur. Þar er hún á láni frá þýska liðinu Wolfsburg og hefur leikið vel upp á síðkastið. Hún segist hafa bætt sig töluvert sem knattspyrnukonu á veru sinni í Svíþjóð en áður var hún frábær á Íslandsmótinu, með bæði Breiðabliki og Keflavík. „Ég hef bætt minn leik, það er ótrúlega gott að hafa Betu sem þjálfara. Hún veit hvað ég þarf að bæta og við vinnum mikið með það.“

Að lokum segist framherjinn spennt að mæta hollenska kollega sínum Vivianne Miedema á þriðjudaginn en sú hollenska er af mörgum talin einn besti sóknarmaður heims. Spilar með stórliði Arsenal á Englandi og hefur skorað 61 landsliðsmark í 68 leikjum fyrir Hollendinga.

„Það er ekki einu sinni hægt að lýsa henni, hún er liggur við með þrjú mörk í leik. Frábær leikmaður og ég horfi mjög mikið á hana, vil læra af henni. Það verður spennandi að sjá hana í leiknum en vonandi gengur henni ekkert allt of vel þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert