Leikur sem reyndi á allan tilfinningaskalann

Frá viðureign KR og Víkings fyrr í dag.
Frá viðureign KR og Víkings fyrr í dag. mbl.i/Arnþór Birkisson

„Þetta var leikur mikillar baráttu og tilfinninga frekar en gæða. Það var svo mikið undir, allir fundu spennuna inn á vellinum og fyrir utan völlinn. Ég hef lengi verið í boltanum en þessi leikur er klárlega einn af þeim sætari,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga eftir dramatískan 1:2 sigur liðsins á KR í Vesturbænum í kvöld.

Víkingar sitja nú í efsta sæti Pepsi Max-deildarinnar í fótbolta, einu stigi á undan Breiðabliki sem tapaði gegn FH á heimavelli í dag.

Frá upphafi leiks ríkti mikil spenna enda var mikið undir hjá báðum liðum. KR komst yfir á níundu mínútu en Víkingur jafnaði skömmu síðar á 16. mínútu. Eftir það var leikurinn nokkuð jafn og voru liðin dugleg að sækja á hvort annað. Þriðja mark leiksins lá lengi í loftinu en það kom þó ekki fyrr en á 87. mínútu þegar Víkingar komust í 1:2. Það dró þó heldur úr fögnuði Víkinga þegar að vítaspyrna var dæmd í uppbótartíma eftir mikil átök í teignum. Ingvar Jónsson markmaður Víkinga gerði sér þó lítið fyrir og varði.

Ótrúlegur sigur

Arnar var vitaskuld ánægður við framistöðu sinna manna og segir hann sigurinn hafa verið ótrúlegan. Segist hann ekki gera sér almennilega grein fyrir hvað gerðist rétt undir leikslok og hafi leikurinn reynt á allan tilfinningaskalann.

„Ég var reiður og skildi ekki alveg. Fyrst var þetta horn og svo allt í einu kom víti. Erfitt að fá útskýringu á þessu. Þetta eykur bara skemmtanagildið. Sérstaklega þegar Ingvar varði.“

11 spjöld fóru á loft í leiknum og fengu Víkingar fimm þeirra, þar af tvö rauð. Spurður hvernig þetta muni hafa áhrif á næsta leik kveðst Arnar þurfa að skoða það aðeins betur. „Kári fékk spjald og svo held ég að Doddi markmaður hafi fengið spjald. Ég á bara eftir að gera þetta almennilega upp. Ég meina við verðum allavega 11 á móti 11 á móti Leikni. Við þurfum bara að ná stjórn á okkar tilfinningum í vikunni og ná fókus.“

Kveðst Arnar sáttur við þá stöðu sem liðið er nú í en mikilvægt sé að missa ekki haus. „Nú erum við komnir í bílstjórasætið. Nú þurfum við bara að klára. Það er gott að fagna en við þurfum að koma okkur niður á jörðina.“

mbl.is