„Ótrúlega mikilvægur sigur fyrir okkur“

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, annar þjálfara Keflavíkur.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, annar þjálfara Keflavíkur. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, var mjög sáttur með 1:0 sigur liðsins á Leiknismönnum í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í samtali við blaðamann mbl.is strax eftir leik á Domusnova-vellinum í dag.

„Þessi sigur hér í dag er ótrúlega mikilvægur fyrir okkur en við eigum eftir að sjá hvernig þetta fer hjá hinum liðunum í þessari fallbaráttu. Við gerðum allavega okkar og við getum farið með góða samvisku heim eftir frábæran dag í dag.

Mér fannst liðið vera að spila mjög vel, við fengum fullt af færum og erum að vinna á mjög erfiðum útivelli. Leiknir er búið að taka 20 stig á heimavelli í sumar og vinna mjög góð lið eins og Val, Víking og hafa gert jafntefli við Breiðablik. Þannig að ég er bara mjög stoltur af strákunum.“

„Skipulagið hjá okkur var virkilega gott í dag. Mikil vinnusemi í strákunum, dugnaður og barátta og það var það sem skilaði okkur sigri hér í dag.

Svo náðum við að skapa okkur fjölmörg góð færi í leiknum og hefðum mögulega getað skorað fleiri mörk en Leiknismenn eru með hörku lið og hafa staðið sig mjög vel í sumar. Núna eigum við einn leik eftir og ætlum að gera allt sem við getum til að fá eins mörg stig og við mögulega getum í sumar.“

Nú hefur ekki gengið vel í deildinni í síðustu leikjum en þið unnuð góðan sigur í bikarnum á dögunum. Hjálpaði sá sigur ykkur hér í dag?

„Já, svo sannarlega. Við erum líka búnir að vera endurheimta leikmenn sem hafa verið meiddir og í leikbanni. Það hefur hjálpað okkur mikið í þessum leikjum og er mikilvægt fyrir okkur því þegar það vantar marga hjá okkur eins og hefur verið raunin síðustu vikur þá megum við við ansi litlu.

Við höfum ekki mikla breidd en þeir sem hafa stigið inn hafa engu að síður staðið sig virkilega vel og geta verið stoltir af sinni frammistöðu. Ég vona að fólkið í Reykjanesbæ sé stolt af liðinu sínu.“

„Við ætlum klárlega að halda okkur í deildinni. Þetta eru allt úrslitaleikir núna og við vitum að næsti leikur er slíkur leikur. Við erum alltaf að reyna að gera betur og bæta okkar leik og það er bara þannig að næsti leikur er alltaf sá mikilvægasti,“ sagði Sigurður að lokum í samtali við blaðamann mbl.is en ef HK tapar gegn Stjörnunni á morgun þá er sæti Keflvíkinga tryggt í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert