Talaði um það fyrir leik hvert Pálmi myndi skjóta

Það var hart barist í Frostaskjóli í kvöld.
Það var hart barist í Frostaskjóli í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Þetta er bara ólýsanlegt, þetta er bara eins og eftir uppskrift,“ sagði Kári Árnason fyrirliði Víkings sem var hæstánægður með sína menn eftir sigurinn á KR-ingum á Meistaravöllum í kvöld. Eftir leikinn í kvöld eru Víkingar í efsta sæti Pepsi Max-deildarinnar í fótbolta þegar einungis ein umferð er eftir og er Íslandsmeistaratitillinn í augnsýn. 

Fyrir leikinn voru Víkingar í 2. sæti, tveimur stigum á eftir Breiðabliki, sem átti einnig leik í dag á móti FH. Breiðablik náði þó ekki að halda forskotinu en þeir töpuðu 0:1 á heimavelli og eru því einu stigi á eftir Víking.

Vissi nákvæmlega hvert Pálmi ætlaði að skjóta

Í uppbótartíma ætlaði allt að sjóða upp úr þegar Víkingur fékk dæmda á sig umdeilda vítaspyrnu. Það kom þó ekki að sök en Ingvar Jónsson markmaður Víkinga varði laglega frá Pálma Rafni. 

„Ég veit ekki alveg á hvað er verið að dæma en ég treysti Ingvari hundrað prósent til að verja þetta. Hann vissi nákvæmlega hvert Pálmi var að fara að skjóta og hann meira að segja talaði um það fyrir leikinn.“

Stefna á báða titlana í ár

Kári segir það mikilvægt að leikmenn liðsins haldi nú fullri einbeitingu fyrir næsta leik enda hafi það gerst áður að liðið hafi verið í þægilegri stöðu en misst hana niður. „Bara áfram gakk. Við verðum að klára okkar leik en það er rosalega þægilegt að þetta sé í okkar höndum.“

Kári er nú kominn í leikbann eftir að hafa fengið gult spjald á 74. mínútu og mun því ekki spila síðasta leikinn í deildinni í ár. Víkingur á þó eftir bikarleiki og getur orðið tvöfaldur meistari á árinu.

Ætliði að taka báða titlana í ár?

„Klárlega!“

Kári Árnason og Kjartan Henry Finnbogason úr viðureign liðanna fyrr …
Kári Árnason og Kjartan Henry Finnbogason úr viðureign liðanna fyrr á árinu. Unnur Karen
mbl.is