KA-menn kjöldrógu Valsmenn í síðari hálfleik

Elfar Árni Aðalsteinsson, Nökkvi Þeyr Þórisson, Arnór Smárason og Tryggvi …
Elfar Árni Aðalsteinsson, Nökkvi Þeyr Þórisson, Arnór Smárason og Tryggvi Hrafn Haraldsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason.

KA gerði frábæra ferð á Origo-völlinn þegar liðið vann öruggan 4:1 sigur gegn Val í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld. KA skoraði þrjú mörk í síðari hálfleik og tyllir sér með sigrinum í 3. sæti deildarinnar.

Valsmenn byrjuðu af miklum krafti og tóku forystuna strax á sjöttu mínútu.

Patrick Pedersen átti þá frábæra sendingu inn fyrir vörnina þar sem hægri bakvörðurinn knái Birkir Már Sævarsson var mættur í mjög gott hlaup sem Pedersen væri sjálfur vísari til að fara í. Birkir Már náði svo að renna sér í boltann á undan Steinþóri Má Auðunssyni og kom honum í netið af stuttu færi, 0:1.

Eftir sterka byrjun hófu heimamenn aðeins að gefa eftir eftir um stundarfjórðungs leik á meðan gestunum óx ásmegin.

Á 25. mínútu jöfnuðu KA-menn svo metin. Eftir langa sókn gaf Bjarni Aðalsteinsson  á Mark Gundelach sem fór laglega með boltann utarlega hægra megin í vítateignum, tók nokkur skæri og lagði hann svo út á Sebastiaan Brebels sem skoraði með góðu innanfótar skoti með vinstri fæti, 1:1.

Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en hvorugu liðinu tókst að bæta við marki og staðan því 1:1 í leikhléi.

Valsmenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og fengu nokkur dauðafæri til þess að taka forystuna á ný.

Allt kom þó fyrir ekki og voru það gestirnir sem komust, nokkuð óvænt miðað við hvernig síðari hálfleikurinn hafði þróast hingað til, yfir á 63. mínútu.  Nökkvi Þeyr Þórisson, sem hafði komið inn á sem varamaður tæpri mínútu fyrr, reyndi þá skot sem fór í varnarmann, hann fékk boltann hins vegar aftur og skoraði með glæsilegu skoti niður í fjærhornið í annarri tilraun, 2:1.

Á 76. mínútu kom svo þriðja mark gestanna. Nökkvi Þeyr og Gundelach léku þá vel sín á milli. Nökkvi Þeyr kom boltanum laglega inn fyrir á Gundelach sem var sloppinn í gegn og renndi honum svo út á Brebels sem skoraði auðveldlega í autt markið.

Fimm mínútum síðar gerði varamaðurinn Elfar Árni Aðalsteinsson, sem var áður búinn að klúðra tveimur dauðafærum, endanlega út um leikinn með fjórða markinu. KA-menn geystust þá í skyndisókn sem endaði með því að Gundelach renndi boltanum til hliðar á Elfar Árna sem var sloppinn í gegn og kláraði af öryggi í nærhornið, 4:1.

Það reyndust lokatölur og KA-menn eru þar með komnir upp í 3. sæti deildarinnar á meðan Valsmenn halda kyrru fyrir í 5. sæti.

Frábær innkoma varamannanna

Í stöðunni 1:1 eftir klukkutíma leik benti fátt til þess að KA myndi hafa öruggan sigur. Valsmenn voru þá nýbúnir að klúðra tveimur dauðafærum þegar Nökkvi Þeyr kom inn á sem varamaður.

Því var það sem blaut tuska í andlit heimamanna þegar hann skoraði nánast um leið. Eftir markið færðu Valsmenn sig framar á völlinn og freistuðu þess að jafna.

Þeir fengu til þess nokkur fín færi en það voru hins vegar KA-menn sem fengu tvö sannkölluð dauðafæri, í bæði skiptin Elfar Árni, áður en Brebels skoraði þriðja markið og gerði þannig út um leikinn.

Elfar Árni, sem kom inn á sem varamaður á 56. mínútu, kom líkt og Nökkvi Þeyr af gífurlegum krafti inn í leikinn og uppskar að lokum verðskuldað mark, sem reyndist síðasti naglinn í kistu Vals.

Yfirburðamaður á vellinum var hins vegar Daninn öflugi, Gundelach, sem fór á kostum í hægri bakverðinum og lagði upp þrjú af fjórum mörkum KA.

Valur 1:4 KA opna loka
90. mín. Birkir Heimisson (Valur) á skot framhjá Flott tilraun beint úr aukaspyrnu en skotið rétt framhjá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert