Kjartan Henry lét hnefana tala

Það varð allt vitlaust í leik KR og Víkings í …
Það varð allt vitlaust í leik KR og Víkings í gær. mbl.is/Arnþór Birkisson

Kjartan Henry Finnbogason, leikmaður KR í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, lét hnefana tala í leik KR og Víkings úr Reykjavík í 21. umferð deildarinnar í Pepsi Max-deildinni á Meistaravöllum í Vesturbæ í gær.

Kjartani var vikið af velli í uppbótartíma eftir að hafa slegið til Þórðar Ingasonar, varamarkvarðar Víkinga, eftir að upp úr sauð milli leikmanna liðanna.

Atvikið náðist á myndband en Kjartan, sem væri alla jafna á leið í eins leiks bann fyrir rauða spjaldið, gæti fengið mun lengra bann vegna hegðunar sinnar.

Víkingar fögnuðu 2:1-sigri í leiknum og eru nú í lykilstöðu í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn en liðið er með eins stigs forskot á Breiðablik fyrir lokaumferðina sem fer fram um næstu helgi.

Á sama tíma er KR í fjórða sæti deildarinnar með 38 stig og þarf að treysta á hagstæð úrslit úr öðrum leikjum til þess að eiga von um Evrópusæti.

Myndband af handalögmálunum á heimasíðu Vísis má sjá með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert