Leikur sem við getum unnið

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins. mbl.is/Unnur Karen

„Sandra var aðeins aum í öxlinni og æfði því ekki í morgun en aðrir leikmenn eru heilir heilsu og klárir í slaginn,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

Ísland mætir Hollandi í fyrsta leik sínum í C-riðli undankeppni HM á Laugardalsvelli á morgun en hollenska liðið er ríkjandi Evrópumeistari og er eitt best mannaða landslið í heiminum í dag.

„Ég vona að leikurinn á morgun verði lokaður og að náum að knýja fram sigur auðvitað. Þær eru sóknarlið en eiga það til að vera veikar varnarlega og það er eitthvað sem við eigum að geta nýtt okkur. 

Markmiðið er að loka á þær sóknarlega og refsa þeim svo en til þess þurfum við auðvitað að þora halda boltanum og vera hugrakkar. Þær hafa verið að fá mikið af mörkum á sig og ég er nokkuð sannfærður um, ef við gerum okkar, að við getum skorað á þær,“ sagði Þorsteinn.

Holland hóf undankeppnina á 1:1-jafntefli gegn Tékklandi í Duisborg í Hollandi á fimmtudaginn síðasta þar sem Mark Parson var að stýra sínum fyrsta leik sem þjálfari liðsins.

„Það voru engar sjáanlegar breytingar á liðinu og þetta var í raun bara alveg eins og liðið er búið að vera spila undanfarin ár. 

Á sama tíma erum við ekki að hugsa of mikið um hvað þær ætla að gera heldur einbeitum við okkur að okkur sjálfum. 

Það má líka ekki gleymast að Tékkarnir eru með gott lið en þrátt fyrir að leikurinn hafi endað 1:1 hefði hollenska liðið getað skorað fleiri mörk,“ bætti Þorsteinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert