Mestu reynsluboltarnir í liðinu

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, landsliðsfyrirliði, ásamt Þorsteini Halldórssyni.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, landsliðsfyrirliði, ásamt Þorsteini Halldórssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Stemningin í hópnum er virkilega góð enda alltaf gaman að koma heim og mæta í landsliðsverkefni,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

Ísland mætir Hollandi í fyrsta leik sínum í C-riðli undankeppni HM á Laugardalsvelli á morgun en hollenska liðið er ríkjandi Evrópumeistari og er eitt best mannaða landslið í heiminum í dag.

„Blandan í hópnum er mjög góð, það eru ungir leikmenn í bland við eldri og reynslumeiri, og það er mikill karakter í hópnum. Við erum búnar að æfa mjög vel í vikunni og það kemur ekkert annað til greina en sigur á morgun.

Ungu stelpurnar sem komu inn í þetta í undankeppni EM eru reynslunni ríkari og þær eru orðnar mestu reynsluboltarnir í hópnum. Það er gaman að sjá hversu efnilegar stelpur við eigum og þær eru strax orðnar miklir leiðtogar.

Ég er mjög spennt fyrir komandi framtíð,“ sagði Gunnhildur.

Hollenska liðið hefur á að skipa gríðarlega öflugum sóknarmönnum en þar ber hæst að nefna Liake Martens, leikmann Barcelona, og Vivianne Miedema, framherja Arsenal.

„Þær eru auðvitað með frábæra sóknarmenn og það er alltaf gaman að mæta leikmönnum sem skora mikið af mörkum. 

Hollenska liðið er frábært að öllu leyti en á sama tíma eru þetta skemmtilegustu leikirnir því það er alltaf skemmtilegast að mæta þessum bestu liðum,“ bætti Gunnhildur Yrsa við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert