Evrópumeistararnir of stór biti fyrir Ísland

Íslandi tókst ekki að skora þegar Evrópumeistarar Hollands komu í heimsókn á Laugardalsvöll í C-riðli undankeppni HM 2023 í kvöld. Leiknum lauk með 2:0-sigri hollenska liðsins en Evrópumeistararnir leiddu 1:0 í hálfleik.

Leikurinn fór fjörlega af stað og Vivianne Miedema fékk fínt færi til að koma Hollandi yfir strax á 8. mínútu eftir að hún fór illa með varnarmenn Íslands en skot hennar úr þröngu færi fór fram hjá markinu.

Mínútu síðar átti Sveindís Jane Jónsdóttir mjög lúmskt skot af hægri kantinum sem Sari van Veenendaal í marki Hollands þurfti að hafa sig alla við til að verja.

Hollendingar settu mikla pressu á íslenska liðið eftir þetta og Daniëlle Van De Donk átti skalla að marki Íslands eftir laglegan undirbúning Jackie Groenen en Sandra Sigurðardóttir í marki íslenska liðsins varði vel.

Íslenska liðið sótti í sig veðrið og fékk nokkur mjög góð sóknartækifæri en alltaf vantaði herslumuninn upp á á síðasta þriðjungi vallarins.

Það var svo Van De Donk sem kom Hollandi yfir á 23. mínútu eftir að boltinn barst til hennar í vítateig Íslands. Van De Donk fékk allan tímann í heiminum til að athafna sig í vítateig íslenska liðsins og hún átti hnitmiðað skot úr miðjum teignum sem söng í bláhorninu.

Liðin skiptust á að sækja eftir þetta, án þess þó að ná að ógna marki hvort annars að einhverju ráði, og Holland leiddi því með einu marki gegn engu í hálfleik.

Hollendingar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og settu mikla pressu á íslenska liðið sem varðist vel.

Dagný Brynjarsdóttir var nálægt því að jafna metin fyrir íslenska liðið á 62. mínútu þegar boltinn datt fyrir hana í vítateig hollenska liðsins en skot hennar fór af varnarmönnum Hollands og í hliðarnetið.

Jackie Groenen bætti svo við öðru marki Hollands þremur mínútum síðar með frábæru skoti af 25 metra færi. Lineth Beerensteyn lagði þá boltann fyrir hana og Groenen þrumaði boltanum upp í samskeytin.

Hollenska liðið átti nokkrar álitlegar sóknir eftir þetta og var líklegri aðilinn til þess að bæta við mörkum.

Agla María Albertsdóttir átti fína skottilraun á 88. mínútu þegar hún fór illa með Sippe Folkertsma á vinstri kantinum og þá fékk Dagný Brynjarsdóttir besta færi leiksins á 89. mínútu þegar Sveindís Jane lagði boltann út á hana en Dagný, sem var ein á auðum sjó í vítateig Hollands, mokaði boltanum yfir markið.

Holland fer með sigrinum upp í 4 stig í annað sæti riðilsins en Ísland er án stiga í fjórða og næstneðsta sætinu.

Ísland 0:2 Holland opna loka
90. mín. Lineth Beerensteyn (Holland) á skot sem er varið Beerensteyn lætur vaða á markið úr teignum en Sandra ver vel.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert