„Hef ekki jafnmiklar áhyggjur af veðrinu og þú“

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef ekkert miklar áhyggjur af veðrinu eins og staðan er í dag og vonandi verður þetta bara passlegt, íslenskt, gott veður,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í gær.

Ísland mætir Hollandi í fyrsta leik sínum í C-riðli undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld klukkan 18:45 en hollenska liðið er ríkjandi Evrópumeistari og er eitt best mannaða landslið í heiminum í dag.

Veðurspáin fyrir kvöldið í kvöld er ekkert sérstök og gæti reynst erfitt fyrir bæði lið að hemja boltann í íslensku haustlægðinni.

„Ég hef ekki alveg jafn miklar áhyggjur af veðrinu og þú,“ sagði Þorsteinn þegar hann svaraði spurningu fjölmiðlamanns um haustlægðina sem gæti haft áhrif á leikinn.

„Þetta er bara eitthvað sem maður tæklar þegar þar að kemur. Það hefur alveg komið fyrir áður að veðurspáin klikki og við tökum stöðuna bara á morgun fyrir liðsfundinn. 

Við erum fyrst og fremst að einbeita okkur að leiknum sjálfum og ég hef engar áhyggjur af veðrinu eins og staðan er í dag,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.

Það var mikil stemning á æfingu íslenska kvennalandsliðsins í gær.
Það var mikil stemning á æfingu íslenska kvennalandsliðsins í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert