Íhugar að hætta eftir átökin í Vesturbæ

Knattspyrnudómarinn Þorvaldur Árnason er einn af okkar reyndustu dómurum.
Knattspyrnudómarinn Þorvaldur Árnason er einn af okkar reyndustu dómurum. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Manni líður auðvitað bara bölvanlega eftir svona leik,“ sagði knattspyrnudómarinn Þorvaldur Árnason í samtali við Vísi en Þorvaldur dæmdi leik KR og Víkings úr Reykjavík í 21. umferð úrvalsdeildar karla á Meistaravöllum í Vesturbæ á sunnudaginn síðasta.

Það sauð allt upp úr leiknum og fóru þrjú rauð spjöld á loft undir restina þegar leikmönnum lenti saman í vítateig Víkinga. 

Þá dæmdi Þorvaldur vítaspyrnu sem var mjög umdeild en Ingvar Jónsson varði spyrnuna og tryggði sínu liði 2:1-sigur og toppsæti deildarinnar fyrir lokaumferðina sem fram fer um næstu helgi.

„Það er ekki eins og maður komi heim til sín eftir svona leik og poppi og hafi gaman,“ sagði Þorvaldur.

„Það er ekki auðvelt að koma heim til átta ára drengsins síns, sem er mikill fótboltaáhugamaður, og þurfa útskýra það fyrir honum sem fram fór á vellinum,“ sagði dómarinn.

Þorvaldur var þá spurður að því hvort hann verði dómari á næstu leiktíð.

„Við sjáum til með það,“ bætti Þorvaldur við í samtali við Vísi.

mbl.is