Lélegt að dómarinn viðurkenni ekki mistök

Valgeir Valgeirsson skoraði sigurmark HK-inga í Kórnum í gær.
Valgeir Valgeirsson skoraði sigurmark HK-inga í Kórnum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birnir Snær Ingason, sóknarmaður HK, fékk að líta rauða spjaldið í leik HK og Stjörnunnar í 21. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, í Kórnum í Kópavogi í gær.

Leiknum lauk með 1:0-sigri HK en Birnir fékk sitt annað gula spjald á 75. mínútu og þar með rautt í stöðunni 0:0.

Spjaldið var afar umdeilt enda lenti Birnir í samstuði inn í vítateig Stjörnunnar og var hann rekinn af velli þar sem dómarinn vildi meina að hann hefði verið að leita að snertingu og þannig gerst sekur um óíþróttamannslega framkomu.

„Ég er bara að fara í 1-2 við [Ásgeir] Börk og svæðið er mjög þröngt þannig ég fæ mann í mig og dett niður,“ sagði Birnir í samtali við fótbolta.net.

„Fyrsta upplifun var að ég hélt hann væri að dæma víti þegar ég heyrði flautið en svo sneri ég mér við og þá var hann búinn að taka gula spjaldið upp.

Þá segi ég við hann „þú veist að þú ert að reka mig út af fyrir þetta,“ og þá kemur hik á hann. Ég held hann hafi ekki áttað sig á því að ég væri á gulu spjaldi.

En þetta náttúrulega gerist mjög hratt og erfitt að sjá þetta bara einu sinni „in the moment“. En við gerum öll mistök og þetta er búið og gert, en mér finnst best að geta viðurkennt mistök þegar maður sér þau eftir á,“ sagði Birnir.

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson mætti í viðtal eftir leik og kvaðst sáttur við sína ákvörðun sem fór ekki vel í alla knattspyrnuáhugamenn.

„Við erum öll að horfa á sama atvikið og hann sá eini sem segir að um dýfu sé að ræða. Hann tekur þessa ákvörðun og maður verður að virða það, en þegar hann fær að sjá það aftur finnst mér lélegt að hann geti ekki játað mistök,“ bætti Birnir við í samtali við fótbolta.net.

mbl.is