Ýmislegt sem maður hefði viljað gera öðruvísi

Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá íslenska …
Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá íslenska liðinu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mér fannst við spila mjög vel í fyrri hálfleik,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins, á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal eftir 0:2-tap liðsins gegn Hollandi í undankeppni HM á Laugardalsvelli í kvöld.

Ingibjörg lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá íslenska liðinu ásamt Glódísi Perlu Viggósdóttur og komst varnarkonan, sem er samningsbundin Vålerenga í Noregi, ágætlega frá sínu.

„Við duttum aðeins of neðarlega í seinni hálfleik og okkur gekk ekki nægilega vel að halda í boltann. Það var erfiðara að komast í gengum þær. Á sama tíma skoruðu þær tvö góð mörk en auðvitað er pirrandi að fá á sig mörk þegar maður er varnarmaður.

Maður lenti nokkrum sinnum í því að selja sig heldur ódýrt þegar þær voru að taka einhverjar skotfintur. Á sama tíma var maður að reyna standa þær af sér en stundum tekur maður bara rangar ákvarðanir í svona leikjum.

Það er ýmislegt sem maður hefði viljað gera öðruvísi svona strax eftir leik en þannig er bara fótboltinn,“ sagði Ingibjörg.

Margar af bestu knattspyrnukonum heims leika með hollenska landsliðinu en þar ber hæst að nefna þær Vi­vi­anne Miedema og Lieke Martens.

„Þetta var mjög skemmtilegt og krefjandi að mæta þessu liði. Maður horfir mikið á þessar stelpur spila og maður hefur gert það lengi.

Því þekkir maður þær ágætlega þó maður hafi ekki spilað á móti þeim áður og það var mjög gaman að bera sig saman við þær,“ bætti Ingibjörg við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert