Hraðprófsleikur í Víkinni

Víkingar geta orðið Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í 30 ár …
Víkingar geta orðið Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í 30 ár á laugardaginn. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Forráðamenn Víkings úr Reykjavík hafa ákveðið að bæta við miðum á leik liðsins gegn Leikni úr Reykjavík í lokaumferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, sem fram fer í Fossvoginum á Laugardag.

Víkingar eru sem stendur í efsta sæti úrvalsdeildarinnar með 45 stig og þeir verða því Íslandsmeistarar með sigri gegn Leikni á laugardaginn.

Það seldist upp á leikinn á örstund á sunnudaginn síðasta en upphaflega voru einungis 1.000 miðar í boði á leikinn. Víkingar hafa hins vegar ákveðið að bæta við aukahólfi á leikinn og því geta þeir selt auka 500 miða. 

Það verða því um 1.500 manns á leiknum á laugardaginn en vegna samkomutakmarkana vegna kórónuveirufaraldursins þurfa allir áhorfendur á leiknum að gangast undir svokallað hraðpróf.

„Þetta þýðir að allir sem eru 16 ára og eldri og eiga aðgöngumiða á leikinn þurfa að fara í hraðpróf og framvísa neikvæðri niðurstöðu við innganginn á völlinn - ásamt aðgöngumiða,“ segir í fréttatilkynningu Víkinga.

„Hraðpróf eru opin alla virka daga frá 08:00 til 12:00 og frá 12:45 til 20:00. Hraðpróf, sem er ókeypis, er pantað í gegnum slóðina https://hradprof.covid.is/ fyrir próf á Suðurlandsbraut og einnig á vefsíðunni www.testcovid.is hjá Öryggismiðstöðinni.

Staðsetningar tveggja skimunarstöðva Öryggismiðstöðvarinnar í Reykjavík eru í Húsi verslunar við hliðina á Kringlunni annars vegar og BSÍ hins vegar,“ segir ennfremur í tilkynningunni


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert