Krafðist þess að ákvörðun stjórnar KSÍ yrði afturkölluð

Kolbeini Sigþórssyni var meinað að taka þátt í síðasta verkefni …
Kolbeini Sigþórssyni var meinað að taka þátt í síðasta verkefni karlalandsliðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögmaður Kolbeins Sigþórssonar, landsliðsmanns Íslands í knattspyrnu og leikmanns Gautaborgar í Svíþjóðar, krafðist þess að stjórn KSÍ myndi afturkalla ákvörðun sína um að meina leikmanninum að taka þátt í landsliðsverkefnum karlalandsliðsins í september.

Þetta kom fram í fundargerð stjórnar KSÍ frá 9. september en Kolbeinn var valinn í íslenska landsliðshópinn sem mætti Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi í undankeppni HM í byrjun september.

Kolbeini var hins vegar meinað að taka þátt í verkefnunum af stjórn KSÍ eftir að tvær konur stigu fram og sökuðu hann um meint ofbeldi en atvikið átti sér stað á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur sumarið 2017.

„Lagt var fram erindi lögmanns fyrir hönd skjólstæðings síns þar sem krafist var að stjórn afturkallaði ákvörðun sína frá dags. 29. ágúst 2021 um að draga skjólstæðing hans úr landsliði,“ segir meðal annars í fundargerðinni.

„Á fundinn mætti utanaðkomandi lögmaður sem fór yfir drög að svarbréfi. Stjórn KSÍ gaf 1. varaformanni umboð til að ganga frá endanlegu orðalagi svarbréfs fyrir hönd stjórnar með lögmanni KSÍ,“ segir ennfremur í fundargerðinni.

Ísland mætir Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM, dagana 8. og 11. október á Laugardalsvelli og mun Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska liðsins, tilkynna næsta landsliðshóp sinn hinn 30. september næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert