Einn sá leikjahæsti kveður Stjörnuna

Halldór Orri Björnsson er að kveðja Stjörnuna.
Halldór Orri Björnsson er að kveðja Stjörnuna. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Halldór Orri Björnsson leikur sinn síðasta leik fyrir Stjörnuna á laugardaginn kemur þegar liðið tekur á móti KR í lokaumferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Halldór Orri er næstleikjahæsti leikmaður Garðbæinga í efstu deild með 172  leiki en aðeins Daníel Laxdal hefur leikið fleiri leiki en hann.

Þá er hann einnig sá næstmarkahæsti í efstu deild með 58 mörk, á eftir Hilmari Árna Halldórssyni, en Halldór er 34 ára gamall.

„Þessi leikur hefur samt sem áður mikla þýðingu fyrir einn af okkar dyggustu þjónum frá upphafi og jafnframt einn markahæsta leikmann okkar í efstu deild!“ segir í tilkynningu Garðbæinga.

„Halldór Orri mun leika kveðjuleik sinn á laugardaginn þegar KR mætir í heimsókn í lokaumferð Pepsi Max-deildarinnar,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Halldór Orri er uppalinn í Garðabænum en hann hefur einnig leikið með Pfullendorf og Falkenberg í atvinnumennsku, ásamt því að leika með FH frá 2017 til 2019 áður en hann snéri aftur í Garðabæinn fyrir tímabilið 2020.

mbl.is