Ekkert annað í stöðunni en að segja af sér

Guðni Bergsson lét af störfum sem formaður KSÍ í lok …
Guðni Bergsson lét af störfum sem formaður KSÍ í lok ágústsmánaðar. mbl.is//Hari

Guðni Bergsson, fyrrverandi formaður KSÍ, sendi bréf á forráðamenn knattspyrnufélaga á Íslandi í vikunni þar sem hann ræðir meðal annars brotthvarf sitt úr formannsstól KSÍ, þakkar fyrir sig og kveður hreyfinguna.

Forrmaðurinn fyrrverandi lét óvænt af störfum í lok síðasta mánaðar eftir að Knattspyrnusambandið hafði verið harðlega gagnrýnt fyrir þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan sambandsins.

„Undanfarnar vikur hafa verið mér lærdómsríkar. Í kjölfar mikillar umræðu í þjóðfélaginu, jafnt í fjölmiðlum sem á samfélagsmiðlum, tók ég þá erfiðu ákvörðun að segja af mér sem formaður KSÍ þann 29. ágúst sl. Þá höfðu málin þróast þannig að ég hafði ekki stuðning stjórnar í þeirri erfiðu og vandasömu stöðu sem komin var upp. Það var því ekkert annað í stöðunni en að axla ábyrgð og segja af mér sem formaður KSÍ," skrifar Guðni í bréfinu sem birtist fyrst á 433.is.

Mál Kolbeins Sigþórssonar hefur verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur.
Mál Kolbeins Sigþórssonar hefur verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur. mbl.is//Hari

Kom ekki heim og saman 

Guðni mætti í Kast­ljósviðtal hinn 26. ág­úst þar sem hann neitaði staðfast­lega að KSÍ hefði fengið til­kynn­ing­ar um meint kyn­ferðis­brot af hálfu landsliðsmanna í knatt­spyrnu.

Í kjöl­far um­mæla Guðna steig Þór­hild­ur Gyða Arn­ars­dótt­ir fram og greindi frá meintu broti landsliðsmanns í knatt­spyrnu en sá reynd­ist vera Kol­beinn Sigþórs­son.

„Af virðingu við hlutaðeigandi þolendur hyggst ég ekki ræða efnislega hér þau tilteknu mál sem leiddu til afsagnarinnar. Ég hef þegar beðist afsökunar og ítreka beiðnina hér á röngu svari í Kastljósi sem ég í einlægni taldi vera rétt en kom ekki heim og saman við atvikalýsingu þolenda. Ég fékk það mál til meðferðar í mars 2018 en það fór síðan í viðeigandi ferli og náðist sátt á milli málsaðila það vor án aðkomu minnar.

Annað mál sem við tókumst á við á rætur að rekja til ársins 2010 og snýr að frásögn og alvarlegum ásökunum sem birtust nýverið á samfélagsmiðlum og kom til okkar vitundar í sumar. Það er ljóst að við í knattspyrnuhreyfingunni erum hluti af samfélaginu og verðum að hlusta á málefnalega gagnrýni og þær kröfur sem uppi eru hverju sinni. Viðbrögð við slíkri gagnrýni þurfa að vera yfirveguð og fagleg,“ skrifaði Guðni.

Knattspyrnusamband Íslands lá undir harðri gagnrýni um tíma vegna þöggunar …
Knattspyrnusamband Íslands lá undir harðri gagnrýni um tíma vegna þöggunar og meðvirkni með meintum gerendum innan sambandsins. mbl.is/Árni Sæberg

Mörg framfaraskref tekin

Þá fer formaðurinn fyrrverandi einnig yfir það sem hann og stjórn KSÍ afrekuðu á starfstíma Guðna.

„Knattspyrnusvið var sett á fót með sérstökum yfirmanni þess, Arnari Þór Viðarssyni og framfaraskref tekin á mörgum sviðum þar með auknum mælingum og þjálfun yngri landsliða. Unnið var náið með aðildarfélögunum með kostun á mynd- og leikgreiningu og við þjálfun m.a. með þjálfurum félaganna. Við kynntum nýja metnaðarfulla afreksstefnu og héldum fyrsta UEFA Pro Licence námskeiðið á Íslandi,“ skrifaði formaðurinn meðal annars.

Hann endar svo á því að þakka fyrir sig og öllum þeim sem hann starfaði með.

„Að lokum vil ég segja, þar sem ég verð ekki með ykkur á aukaþinginu sem framundan er, að það hafa verið forréttindi að starfa með ykkur og öllu því góða fólki sem að knattspyrnuhreyfingunni kemur. Starf ykkar fyrir fótboltann og um leið samfélagið allt er gríðarlega mikilvægt. Við megum aldrei missa sjónar á því. Ég vil í lokin þakka fyrir mig og óska ykkur öllum, kæru félagar og vinir, góðs gengis og bjartrar framtíðar í starfi og leik,“ bætti formaðurinn fyrrverandi við.

Arnar Þór Viðarsson var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ í …
Arnar Þór Viðarsson var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ í maí 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is