Tilbúinn til að hætta hjá Fram og taka sæti í stjórn KSÍ

Ásgrímur Helgi Einarsson, til vinstri, ásamt Fred Saraiva, leikmanni Fram.
Ásgrímur Helgi Einarsson, til vinstri, ásamt Fred Saraiva, leikmanni Fram. Ljósmynd/Fram

Ásgrímur Helgi Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, hefur ákveðið að gefa kost á sér  til setu í stjórn Knattspyrnusambands Íslands á aukaþinginu sem fram fer um aðra helgi.

Ásgrímur tilkynnti þetta á Facebook-síðu sinni í dag og kveðst þar vilja leggja sitt af mörkum ti lað endurvekja traust og trú á knattspyrnusambandinu. Hann ætlar að hætta formennsku hjá Fram ef hann hlýtur kosningu.

Yfirlýsing Ásgríms:

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til setu í stjórn KSÍ á aukaþingi sem haldið verður 2. október nk. Ég vill leggja mitt af mörkum til þess að endurvekja traust og trú á sambandinu ásamt því að vinna að þeim fjölmörgu áríðandi málum sem framundan eru. KSÍ er samnefnari fyrir félögin í landinu og því er nauðsynlegt að starf KSÍ sé opið og gegnsætt svo félögin hafi greiðan aðgang fyrir sína rödd og skoðanir.

Hljóti ég brautargengi á þinginu mun ég hætta sem formaður knd. Fram. Það er það sem var erfiðast í ákvörðun minni en ég tel mig skilja við Fram á góðum stað og í höndunum á góðu fólki, bæði stjórn og stuðningsmönnum, FRAMtíðin er björt þar, flutningar FRAMundan og keppni í efstu deild hefst í Úlfarsárdal næsta sumar.

Ég tel að hátt í 30 ára reynsla af ýmsum störfum innan knattspyrnunnar sem þjálfari, dómari, stjórnarmaður, stuðningsmaður og foreldri geri mig að góðum kandidat til setu í stjórn KSÍ.

mbl.is