Sex marka jafntefli á Ísafirði

Nacho Gil (t.v.) jafnaði metin fyrir Vestra á ögurstundu.
Nacho Gil (t.v.) jafnaði metin fyrir Vestra á ögurstundu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Vestri og Kórdrengir skildu jöfn, 3:3, í síðasta leik 1. deildar karla í knattspyrnu í dag.

Leikurinn hófst fjörlega þegar Alex Freyr Hilmarsson kom gestunum í Kórdrengjum í forystu með marki beint úr hornspyrnu á 11. mínútu.

Á 20. mínútu tvöfaldaði næstum því nafni hans, Axel Freyr Harðarson, forystuna fyrir Kórdrengi.

Eftir þessa kröftugu byrjun gestanna tóku heimamenn í Vestra að hrista af sér slenið.

Spánverjinn Martin Montipo minnkaði muninn eftir hálftíma leik og Pétur Bjarnason jafnaði metin úr vítaspyrnu sem hann fékk sjálfur skömmu fyrir leikhlé.

Staðan því 2:2 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var ekki síður fjörugur en á einhvern illskiljanlegan hátt virtust mörkin ætla að láta á sér standa í honum.

Varamaðurinn Leonard Sigurðsson, sem kom inn á í hálfleik fyrir markaskorarann Axel Frey, skoraði hins vegar þriðja mark gestanna á 74. mínútu.

Það virtist ætla að reynast sigurmark leiksins en Spánverjinn Nacho Gil jafnaði metin á ný í uppbótartíma og þar við sat.

Kórdrengir hafna í fjórða sæti 1. deildar á sínu fyrsta tímabili í sögu félagsins í henni á meðan Vestri hafnar í því fimmta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert