„Blendnar tilfinningar“

Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Það er ekki gott að segja. Við fengum á okkur of mörg mörk í dag,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, þegar mbl.is spurði hann hvað hafi eiginlega gerst á síðasta hálftímanum í leik liðsins gegn ÍA í lokaumferð Pepsí Max deildar karla í knattspyrnu í dag. 

„Við vorum 2:0 yfir og það var jákvætt en mér fannst við gefa full mikið eftir. Við gáfum ódýr mörk. Sérstaklega fyrsta markið sem fór af varnarmanni en mér fannst Sindri samt eiga að verja skotið. Boltinn lak einhvern veginn undir hann. Skaginn komst þá svolítið inn í leikinn og fékk vítamínssprautu við það mark. En við eigum að gera betur en þetta. Þessu fylgja blendnar tilfinningar því í dag tryggðum við einnig áframhaldandi veru í deildinni. Það er gríðarlega jákvætt fyrir félagið að vera í efstu deild á næsta ári og spennandi að byggja ofan á það.“

Þar sem ÍA vann Keflavík þá skipti máli fyrir Keflavík að HK tapaði fyrir Breiðabliki. Þegar leið á þann leik var staðan 2:0 og loks 3:0 fyrir Blika og úlítil hætta þegar á að Keflavík færi niður um deild úr því sem komð var. Fylgdist Sigurður Ragnar með stöðunni hjá Breiðabliki og HK? 

„Já við fengum að vita hvað staðan væri en við kölluðum það ekki inn á völlinn. Við vorum ekki að blanda því inn í okkar leik. En jú jú ég fékk að vita öðru hvoru hvað var að gerast á öðrum völlum,“ sagði Sigurður Ragnar sem er aldeilis ekki kominn í frí því ÍA og Keflavík mætast aftur eftir viku í undanúrslitum bikarkeppninnar. 

„Ég veit ekki hvort þessi úrslit hafi áhrif á það. Ég held að hver leikur gildi fyrir sig og það er önnur keppni. Okkur hefur gengið vel í bikarnum og þar höfum við lagt að velli þrjú lið úr Pepsí Max deildinni. Vonandi verður Skaginn það fjórða. Það væri stórkostlegt fyrir strákana okkar að komast í bikarúrslitaleik og við munum klárlega reyna að gera betur en við gerðum í dag,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson í samtali við mbl.is í Keflavík. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert