Daníel líklega áfram en Halldór Orri hættur

Halldór Orri Björnsson er að kveðja Stjörnuna.
Halldór Orri Björnsson er að kveðja Stjörnuna. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Mér finnst tímabilið í heild sinni ekki nógu gott en við  náum að bjarga okkur frá falli og það er þá bara fínt afrek en samt svekkjandi tímabil,“ sagði Daníel Laxdal fyrirliði Stjörnunnar eftir 2:0 tap fyrir KR þegar liðin mættust í síðustu umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu  í Garðabænum í dag.  

„Við vildum eins og síðustu ár vera í toppbaráttunni en svo var byrjunin á mótinu skrýtin, þjálfaraskipti, meiðsli og fleira svo þetta var erfitt, líka andlega og við verðum hver og einn að skoða okkur sjálfa og taka þetta á okkur líka.  Best er að gleyma þessu sem fyrst.“

Rúnar Páll Sigmundsson lét af störfum snemma móts og fyrirliðinn sagði það skrýtna tilfinningu en býst sjálfur ekki við að hætta en Daníel verður 36 ára næsta tímabil.  „Ég held að hann hafi þjálfað okkur í sjö eða átta ár.  Það var skrýtið þegar hann fór en svona er þetta víst í boltanum og það er bara að halda áfram.   Ég á eitt ár eftir en orðinn gamall, tek mér nú gott frí og hugsa nú málið en býst við að verða áfram,“ bætti Daníel við.

Verð í stúkunni næsta sumar en það verður skrýtið

Stjörnumaðurinn Halldór Orri Björnsson var heiðraður fyrir leikinn og fékk heiðurskiptingu eftir klukkutíma í dag.  „Þetta var minn síðasti leikur, þetta er komið gott, maður er kominn á aldur og þetta tekur allt sinn enda“, sagði kappinn, sem átti fínan leik í dag.

„Ég verð í stúkunni næsta sumar og það  verður skrýtið, maður  verður enn viðloðandi klúbbinn þó maður sé hættur að spila en  það verður mikil breyting.   Ég lenti í slæmum meiðslum á undirbúningstímabilinu og var frá í þrjá mánuði en skrokkurinn er reyndar í fínu lagi.“

Hann var þó vonsvikinn með tímabilið.  „Við ætluðum að gera betur en þetta.  Hinsvegar var sumarið skrýtið og það gerðust ýmsir hlutir, sem var óvanalegt að það þýðir ekki að fela sig á bak við það  endalaust og við vitum að við  áttum að gera betur svo nú er  bara að þjappa liðiðnu betur saman fyrir næsta tímabil.  Ég hef fulla trú á að Stjarnan muni tefla fram frambærilega liði næsta sumar sem gerir betur en í ár.   Það var leiðinlegt að enda tímabilið svona en úr því sem komið var, var þó gott að tryggja sætið í deildinni en klúbburinn eins og Stjarnan stefnir alltaf miklu hærra og ég hef trú á að við náum að snúa þessu við næsta tímabil,“  sagði Halldór Orri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert