Draumur að vinna með Kára og Sölva

Ingvar Jónsson horfir á félaga sinn, hinn markvörð Víkings, Þórð …
Ingvar Jónsson horfir á félaga sinn, hinn markvörð Víkings, Þórð Ingason, lyfta Íslandsbikarnum á Víkingsvellinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingvar Jónsson markvörður Víkings sagði eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í dagað það hefði verið draumur að spila með Kára Árnasyni og Sölva Geir Ottesen og hjálpa þeim að ljúka sínum ferli með því að vinna Íslandsbikarinn.

Ingvar varð Íslandsmeistari í annað sinn en hann var í liði Stjörnunnar sem vann titilinn árið 2014. Hann sagði í viðtali við Morgunblaðið í vikunni að eldri leikmennirnir hjá Víkingi þyrftu að halda þeim yngri á jörðunni í vikunni fram að leiknum við Leikni og hann tók undir þau orð að það hefði greinilega tekist.

„Já, ég held það og þeir þurftu nú reyndar ekki mikla hjálp við það. Þetta eru ótrúlega þroskaðir strákar, þeir hafa þroskast mikið í sumar, og ég hafði eiginlega mestar áhyggjur af Halla (Halldóri Smára Sigurðssyni) í dag. Hann er búinn að vera í Víkingi síðan hann var eins árs svo það er vel skiljanlegt að tilfinningarnar hafi verið gríðarlega hjá honum.

En á æfingunni í gær og í upphituninni í dag var ljóst að menn væru algjörlega 100 prósent klárir í þetta," sagði Ingvar við mbl.is eftir sigurinn á Leikni í dag.

Víkingar höfðu góð tök á leiknum í dag, skoruðu tvö mörk á síðustu fimmtán mínútum fyrri hálfleiks og héldu síðan fengnum hlut af miklu öryggi. Ingvar sagði að eflaust hefði ekki verið gaman að horfa á leikinn sem slíkan og hann hefði allavega ekki í hyggju að horfa á hann aftur!

„Leiknismenn eru með gott lið og þetta hefur auðvitað verið skrýtinn leikur fyrir þá. En við gerðum það sem þurfti og það var mjög þægilegt að komast í 2:0 og fara með þá stöðu inn í hálfleik. Síðan var örugglega alveg skelfilegt að horfa á seinni hálfleikinn, og ég efast um að ég eyði tíma í að horfa á hann aftur, en okkur getur ekki verið meira sama um það. Við vildum bara klára þetta. Þeir áttu held ég ekkert skot á markið svo það var geggjað að klára þetta svona, með því að halda hreinu. Blikarnir hafa verið frábærir í sumar og það gerir þetta enn sætara. Við vorum fyrir aftan þá allan tímann en náðum að stinga okkur fram fyrir þá þegar lítið var eftir," sagði Ingvar.

Hann hrósaði þjálfaranum, reynsluboltunum fyrrnefndu og svo Pablo Punyed sem kom til Víkings fyrir KR fyrir tímabilið.

„Arnar hefur þroskast mikið sem þjálfari frá því í fyrra og tekið hárréttar ákvarðanir hvað eftir annað. Leikmenn sem komu inn í liðið voru góðir og þeir Kári og Sölvi stigu þvílíkt upp. Þeir ætluðu bara að klára þetta með titli og það er draumur fyrir okkur alla að fá að spila með þeim og tryggja þeim titilinn. Þetta gæti ekki verið fallegra.

Og svo er Pablo Punyed einfaldlega einn besti leikmaður sem ég hef spilað með á mínum ferli. Hann hefur breytt miklu og gefið liðinu gríðarlega mikið. Hann á hellings heiður skilinn. Það er engin tilviljun að hann hefur unnið nokkra bikara á sínum ferli," sagði Ingvar.

Og nú hefur þú unnið tvo sjálfur!

„Já, það er rétt. Maður verður ekkert leiður á þessu og ég held bara áfram að telja! Hefði KR-leikurinn verið síðasti leikurinn, hefði þetta verið svipað og þegar ég vann titilinn með Stjörnunni 2014. Þetta KR-augnablik var ótrúlegt og auðvitað vildi maður ekki fagna of mikið þá en það sneri þessu við og gaf okkur trúna. Þá var í rauninni besti sénsinn til að komast í efsta sætið – möguleikinn var sá að Blikar myndu tapa í Hafnarfirði gegn góðu FH-liði, og það gekk allt upp.

Þetta var þvílíkur rússíbani og leikurinn í dag var allt öðruvísi leikur í dag. Hann snerist um að halda einbeitingu og klára okkur. Við gerðum það mjög fagmannlega og ég er mjög stoltur af liðinu," sagði Ingvar Jónsson, sem lagði þungt lóð á vogarskálarnar hjá Víkingum með því að verja vítaspyrnu í lok uppbótartímans í sigurleiknum dramatíska gegn KR í næstsíðustu umferðinni.

mbl.is