Eðlilega er þungt yfir mönnum

Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK á hliðarlínunni í dag.
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Við náðum aldrei neinum þunga í okkar sóknarleik í dag,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, í samtali við mbl.is eftir 0:3-tap liðsins gegn Breiðabliki í lokaumferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Kópavogsvelli í dag.

„Leikurinn var á ágætum stað í fyrri hálfleik og okkur gekk ágætlega að halda Blikunum í skefjum ef svo má segja. Þeir fengu eitt til tvö ágætis færi en meira var það ekki.  Eftir að þeir skora fyrsta markið þá þurftum við að opna okkur meira og reyna sækja. Blikarnir eru góðir í þannig stöðu, þeir refsuðu okkur og skoruðu tvö mörk til viðbótar,“ sagði Brynjar.

Við áttum eina og eina fyrirgjöf, eitt og eitt hálffæri og nokkra ágætis möguleika sóknarlega en það vantaði meira bit. Það getur verið erfitt að verjast til langs tíma og orkan var einfaldlega ekki til staðar til að sækja leikinn þegar mest á reyndi,“ sagði Brynjar.

Kristinn Steindórsson fagnar marki sínu á Kópavogsvelli í dag.
Kristinn Steindórsson fagnar marki sínu á Kópavogsvelli í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Ætluðum okkur stærri hluti

HK-ingar leika í 1. deildinni á næstu leiktíð eftir ótrúlegar lokamínútur í Keflavík þar sem Skagamenn unnu 3:2-sigur eftir að hafa lent 0:2-undir.

„Við vissum aldrei hvað var í gangi í öðrum leikjum, nema bara rétt undir lok leiksins. Við skynjuðum auðvitað aðeins hvað var í gangi í gegnum stemninguna í stúkunni, án þess að vita nákvæmlega hvað hvað var að gerast. Það er þungt yfir okkur núna, menn eru eðlilega svekktir enda ætluðum við okkur meira. Ekki bara hér í dag heldur á tímabilinu öllu.

Ég er með tveggja ára samning við HK og það eru sárafáir leikmenn með lausan samning þannig að leikmannakjarninn ætti að vera svipaður á næstu leiktíð. Markmiðið verður væntanlega að snúa strax aftur í efstu deild. Fyrsta deildin er erfið deild en hún er líka skemmtileg og ég er klár í að stýra liðinu áfram þar,“ bætti Brynjar Björn við í samtali við mbl.is.

mbl.is