Valsmenn skoruðu fimm í seinni

Valsmenn fara í Árbæinn í lokaumferðinni.
Valsmenn fara í Árbæinn í lokaumferðinni. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Valsmenn unnu 6:0 sigur á föllnum Fylkismönnum á útivelli í lokaumferð úrvalsdeildar karla. Jafnræði var með liðunum framan af leik, og var staðan einungis 1:0 fyrir Val í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var hins vegar eign gestanna, og skoruðu þeir fimm mörk. Gerði danski markahrókurinn Patrick Pedersen þrennu, á meðan Guðmundur Andri Tryggvason skoraði tvö. 

Valsmenn bundu því enda á fimm leikja taphrinu sína í deild og bikar með fínum leik, sem annars skipti litlu máli fyrir niðurstöður deildarinnar í heild, þar sem úrslit annars staðar féllu þeim ekki í vil.

Eins og staðan var í deildinni fyrir leik var um fátt annað að spila en stoltið, þó að Valsmenn eygðu örlitla möguleika á að ná að skjóta bæði KA og KR ref fyrir rass ef þau lið næðu ekki úrslitum í sínum leikjum með því að vinna stórsigur. 

Mikið jafnræði ríkti þó með liðunum tveimur í fyrri hálfleik og sýndu þau bæði góða spilkafla úti á velli. Munurinn lá hins vegar í því að Valsmenn náðu iðulega að ljúka sínum sóknum með færi eða skoti, á meðan herslumuninn vantaði að Fylkismenn ógnuðu marki Valsmanna að ráði. 

Á 34. mínútu dró til tíðinda þegar Patrick Pedersen skoraði fyrsta mark Valsmanna, en hann var einn á auðum sjó eftir flotta fyrirgjöf Tryggva Hrafns Haraldssonar. Fylkismenn töldu hins vegar að brotið hefði verið á sér í aðdraganda marksins. Sóttu Valsmenn nokkuð í sig veðrið eftir markið, en náðu ekki að bæta við í fyrri hálfleik.

Þeir hófu svo seinni hálfleik með krafti þegar Almarr Ormarsson náði flottu skoti eftir fínt upphlaup en Aron Snær Friðriksson var vandanum vaxinn í marki Fylkismanna. Hann gat hins vegar lítið gert á 54. mínútu þegar Guðmundur Andri Tryggvason framlengdi skot frá Patrick Pedersen, sem stefndi framhjá markinu, og breytti stefnu boltans þannig að hann söng í netinu. 

Þó að stefndi í óefni vildu Fylkismenn þó ekki játa sig sigraða, og fékk Helgi Valur Daníelsson fínt færi til þess að skora á 65. mínútu eftir að Fylkisliðið hafði sýnt mikla sambatakta út á velli. Sóknin sem leiddi til færisins var stórglæsileg, og hefði enginn getað grætt það hefði henni endað með marki frá Helga Val, sem lék í dag sinn síðasta leik fyrir Fylki, eftir feril sem spannar 23 ár í meistaraflokki. Helgi Valur lék enda mjög framarlega í dag og átti sinn þátt í bestu sóknarlotum Fylkis. 

Valsmenn refsuðu hins vegar grimmilega fyrir færið sem fór forgörðum, því strax á næstu mínútu bætti Patrick Pedersen öðru marki sínu við og þriðja marki Valsmanna. Hann náði þá að komast einn á móti markmanni eftir sendingu frá Birki Má Sævarssyni, og setti boltann laglega framhjá Aroni Snæ. Patrick fullkomnaði svo þrennuna á 72. mínútu með fínu skallamarki eftir hornspyrnu.

Staðan var hér orðin 4:0 fyrir gestina og nokkuð ljóst að úrslitin væru ráðin. Engu að síður reyndu Fylkismenn að klóra í bakkann, og á 76. mínútu skallaði Arnór Gauti Jónsson hárfínt framhjá marki Valsmanna. Þeir svöruðu hins vegar fyrir sig með því að bæta fimmta markinu við í næstu sókn, og var það Guðmundur Andri Tryggvason sem átti laglegan undirbúning og þrumaði boltanum svo í mark Fylkismanna. 

Leikurinn bar þá þess merki að sjálfstraust heimamanna væri á þrotum, og náði Arnór Smárason því að skora sjötta mark Valsmanna á 84. mínútu með glæsilegu langskoti fyrir utan teiginn. 

Það verður því ekki annað sagt en að létt hafi verið yfir lautarferð Valsmanna, sem sóttu sex mörk og þrjú stig í Árbæinn í dag, og bundu um leið á taphrinu sem kostaði þá færið á að verja Íslandsmeistaratitilinn. Þeir munu því eflaust vilja nýta sér þessi úrslit til að setja strik undir vonbrigðatímabil 2021 og horfa björtum augum til næsta sumars. 

Fylkismenn voru fallnir fyrir þennan leik, og framan af höfðu þeir í fullu tréi við Valsmenn. Það vantaði þó herslumuninn líkt og oft áður í sumar á að liðið gæti nýtt sér fínar sóknir og skorað mörk. Lið þeirra er hins vegar skipað ungum og efnilegum leikmönnum, sem nú bíður þess verkefni að hefja Árbæinga aftur í deild þeirra bestu. 

Fylkir 0:6 Valur opna loka
90. mín. Malthe Rasmussen (Fylkir) á skot framhjá +2
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert