Fyrir framan fjölskyldu, vini, nágranna og skólafélaga

Sölvi Geir Ottesen gat fagnað Íslandsbikarnum með sínum nánustu eftir …
Sölvi Geir Ottesen gat fagnað Íslandsbikarnum með sínum nánustu eftir leikinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var minn síðasti leikur á Víkingsvellinum og það er draumi líkast að geta lyft Íslandsbikarnum fyrir uppeldisfélagið í síðasta heimaleiknum á ferlinum, fyrir framan allt þetta fólk, fyrir framan fjölskyldu og vini, nágranna, skólafélaga og alla úr hverfinu," sagði Sölvi Geir Ottesen fyrirliði Víkings við mbl.is eftir að hafa tekið við Íslandsbikarnum á Víkingsvellinum í dag.

Víkingar unnu þar sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í 30 ár og Sölvi sem lék fyrst með meistaraflokki félagsins árið 2002 hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir þetta tímabil en Víkingar eiga enn allavega einn leik, ef ekki tvo, eftir í bikarkeppninni.

„Þetta er draumi líkast, nánast ólýsanlegt, og stuðningurinn í dag og í síðustu leikjum hefur verið magnaður. Maður hefði ekki viljað hafa þetta öðruvísi en nákvæmlega svona," sagði Sölvi.

Víkingar voru ekki á toppi deildarinnar fyrr en viku fyrir lok Íslandsmótsins og tryggðu sér titilinn með sigri á Leikni úr Reykjavík, 2:0, á Víkingsvellinum í dag.

„Við höfum haldið ótrauðir áfram, haft óbilandi trú á sjálfum okkur og svo fóru úrslitin að falla með okkur. Þetta er frábær hópur af strákum, það stigu allir upp, það hafa allir bætt sig mikið frá síðasta ári og líka á tímabilinu sjálfu, þar hafa þeir haldið áfram. Ef einhver hefur átt slakan leik hefur annar komið í staðinn, og þannig hefur þetta verið. Ég er hrikalega stoltur af öllu liðinu, sérstaklega ungu strákunum," sagði Sölvi.

Víkingar enduðu í tíunda sæti í fyrra og því óhætt að segja að framfarir liðsins undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar hafi verið miklar á þessu ári. Sölvi tók heilshugar undir það.

„Sko, vissulega leit þetta ekki vel út í fyrra þegar við enduðum í tíunda sæti. En okkur fannst við sjálfir ekki spila lélegan fótbolta í fyrra. Við sáum að það var svigrúm til staðar til að gera betur. Við þurftum aðeins að fínstilla okkur og gerðum það svo sannarlega á þessu ári. Okkur tókst að fínstilla ákveðna hluti eins og með varnarleikinn sem liðsheild, og marga aðra hluti. Það skilaði sér. Arnar á hrós skilið fyrir að taka eintómar réttar ákvarðanir í sumar og ég er hrikalega ánægður með hann eins og alla sem hafa komið að liðinu í Víkinni."

En þið eruð ekki hættir, næst eru það undanúrslitin í bikarnum og þið ætlið ykkur væntanlega annan titil þar?

„Já, algjörlega. Við erum ekki hættir núna. Einn titill er kominn og við ætlum að ná í báða. En við ætlum að leyfa okkur að fagna aðeins í kvöld. Það er ekki á hverjum degi sem þetta gerist. Svo þurfum við á næstu dögum förum við að einbeita okkur að undanúrslitaleiknum í bikarnum," sagði Sölvi Geir Ottesen en Víkingar mæta Vestra á Ísafirði á laugardaginn kemur, 2. október.

mbl.is