Held að við höfum staðist prófið ansi vel

Júlíus Magnússon, lengst til hægri, fagnar Íslandsbikarnum með félögum sínum.
Júlíus Magnússon, lengst til hægri, fagnar Íslandsbikarnum með félögum sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Júlíus Magnússon hefur verið í fararbroddi hjá yngri kynslóðinni í Íslandsmeistaraliði Víkings og leikið mjög vel á miðjunni hjá liðinu í sumar.

Hann var að vonum ánægður þegar mbl.is ræddi við hann eftir sigurinn á Leikni í dag en Júlíus er 23 ára gamall og er að ljúka þriðja tímabili sínu með meistaraflokki Víkings eftir að hafa farið ungur frá félaginu til Heerenveen í Hollandi.

Spurður hvernig tilfinningin að vera orðinn Íslandsmeistari í fótbolta væri svaraði Júlíus:

„Hún er bara ólýsanleg. Ég er ennþá í einhverju móki að reyna að átta mig á því að við séum orðnir Íslandsmeistarar.“

Hvernig fóruð þið að því að snúa við gengi ykkar eftir erfitt tímabil í fyrra?

„Það var erfiðisvinna allan síðasta vetur þar sem við unnum vel í þeim atriðum sem þurfti að laga. Við spiluðum ekki illa í fyrra en náðum ekki að vinna leikina. Nú náum við að vinna þá og spila betri varnarleik en áður sem er grundvöllurinn að þessu, held ég.“

Hvenær áttaðirðu þig á því að þið gætuð farið langt í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn?

„Sko, maður fann allt sumarið þegar við spiluðum á móti stóru liðunum að við vorum alltaf gíraðir fyrir leikina gegn þeim. Svo á miðju tímabili mættum við liðum sem voru neðarlega í deildinni og töpuðum stigum til þeirra. Ég held að við höfum ekki vanmetið þau, það var allavega ekki sú tilfinning sem ég fékk, en þá þurftum við kannski að skora og þá lágu þau aftarlega og beittu skyndisóknum á okkur.

Þetta var dálítið þreytandi en svo sá maður í stóru leikjunum að við vorum klárir og þegar við mættum bestu liðunum sýndi sig að við áttum möguleika og það kom á daginn.“

Hvernig var svo síðasta vika, eftir sigurinn á KR og með þennan leik í sigtinu og vera komnir með Íslandsbikarinn í sjónmál?

„Það var erfitt að hugsa ekki um leikinn. Maður reyndi að vera sem mest upptekinn, og vera einbeittur á æfingum. Drekka í sig öll ráð þjálfara og gömlu leikmanna og gíra sig vel upp fyrir leikinn. Við kunnum ekki beint á svona aðstæður en ég held að við höfum staðist prófið ansi vel. Þetta  var magnað.“

Leikurinn við Leikni í dag var ekki mikið fyrir augað en reyndi það ekki á þolinmæðina að bíða fyrsta hálftímann eftir því að fá marktækifæri og skora?

„Ég held að þetta hafi verið svipað og í mörgum öðrum leikjum hjá okkur. Þolinmæðisvinna, engin panik, heldur bíða eftir tækifærunum án þess að reyna að þrýsta of mikið á þá og reyna að skora strax á fyrstu mínútu. Treysta því frekar að markið kæmi, og það kom, guði sé lof. Það var algjör léttir að skora fyrsta markið, og ennþá meiri léttir að skora annað markið. 

Seinni hálfleikurinn snerist um að halda fengnum hlut, það gerðist nánast ekkert, en ef maður horfir á þetta eftir leik þá var fínt að hafa seinni hálfleikinn svona. Hann spilaðist ekki eins og við ætluðum, en ég held að þetta hafi verið í undirmeðvitundinni hjá öllum: Heyrðu, við erum 2:0 yfir, höldum þessu, enga sénsa!“

Þið mætið Vestra á Ísafirði næsta laugardag og eruð væntanlega með bikarinn í sigtinu líka?

„Það er eina markmiðið. Við þurfum að einbeita okkur algjörlega að þeim leik og byrja að skoða hann eftir helgina. Næsta vika verður væntanlega eins og sú síðasta og við megum ekkert gefa eftir. Við erum ekki búnir," sagði Júlíus Magnússon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert