Hugarfarið var engu líkt að mati Jóhannesar

Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Jóhannes Karl Guðjónsson sagði hugarfar Skagamanna innan vallar sem utan hafa orðið til þess að liðinu tókst á ævintýralegan hátt að bjarga sér frá falli í næstefstu deild karla í knattspyrnu. 

Hvernig skýrir Jóhannes það að botnliðið í deildinni sem átti erfitt með að safna stigum hafi tekið sig til og bjargað sér með því að vinna síðustu þrjá leikina? 

„Við höfðum alveg trú á því að við værum nógu góðir og rúmlega það til að vera í efstu deild. Hlutirnir hafa ekki dottið með okkur. Mér fannst við til dæmis eiga skilið að fá stig í útileikjunum gegn Víkingi og Breiðabliki. Við fengum víti í andlitið á lokamínútunum í þeim leikjum og töpuðum. Það var mikið svekkelsi. Okkur leið í sumar eins og við ættum meira skilið en við vorum að fá. Við höfðum trú á þessu. Okkur fannst umfjöllunin á köflum ósanngjörn. Okkur fannst einnig leikirnir í upphafi móts ekki falla með okkur en það var engum nema okkur sjálfum að kenna. Okkur fannst ekki alveg sanngjarnt hvar við stóðum og við vildum fá meira út úr fyrri umferð mótsins. En það breytti því ekki að leikmennirnir höfðu trú á því sem við vorum að gera. Við höfðum komið á vissan hátt haltrandi inn í mótið vegna þess að á undirbúningstímabilinu var nokkuð um óheppnismeiðsli. Alex Devey kom seint inn og strax í upphafi móts meiddust Árni Snær og Sindri Snær. Steinar Þorsteins gat ekkert æft með okkur í vetur.

Ég er því að reyna að útskýra hvers vegna ennþá sé stígandi í okkar liði og hvers vegna við unnum síðustu leikina. Smám saman komust menn í betra form og urðu kraftmeiri. Um leið kom meira sjálfstraust. Við sýndum í síðustu leikjunum að við erum með nógu góða fótboltamenn til að vera í efstu deild og rúmlega það. Við gáfumst ekki upp og héldum áfram. Við sáum til þess á endanum að hlutirnir féllu með okkur. Við létum þá falla með okkur. Ef ég ætti að draga gengi okkar í sumar saman þá má líkja því við þennan leik í Keflavík. Fyrri hlutann gerðum við margt gott en seinni hlutann spiluðum við ekki eins vel en sýndum trú og hugarfar.“

Leikmenn og stuðningsmenn ÍA fagna sigrinum skömmu eftir að Vilhjálmur …
Leikmenn og stuðningsmenn ÍA fagna sigrinum skömmu eftir að Vilhjálmur Alvar flautaði til leiksloka í Keflavík. mbl.is/Kris

Jóhannesi Karli þótti ekki alltaf stuðningsmenn ÍA vera líflegir í sumar en hann jós þá lofi eftir leikinn í Keflavík. 

„Þetta var orðið svolítið svart í stöðunni 2:0. Við byrjuðum leikinn vel og spiluðum bara fínan fótbolta. Spiluðum út frá marki og sköpuðum okkur tækifæri. Pressuðum vel og fengum víti. Það sem við lögðum inn í fyrri hálfleik var mjög flott. Bæði spilamennskan en einnig grimmdin og hugarfarið. Samt vorum við 1:0 undir í hálfleik. Í seinni hálfleik ætluðum við okkur að halda áfram á sömu nótum en þá tókst okkur ekki að halda boltanum nægilega vel og reyndum  langar sendingar of oft. Við fengum sjálfsmark í andlitið og vorum þá 2:0 undir. Að hafa komið til baka og unnið 3:2 eftir það er magnað. Til að skora mörk í fótbolta þarf getu en hugarfarið sem þessir strákar og stuðningsmennirnir sýndu í dag er engu líkt. Strákarnir höfðu vilja til að vinna hver fyrir annan. Stuðningsmennirnir og leikmennirnir lögðu gríðarlega mikið á sig í síðustu tveimur leikjunum. Stuðningurinn sem við fengum í heimaleiknum á móti Fylki og hér í Keflavík var geggjaður. Stuðningsmennirnir hjálpuðu okkur að tryggja veru liðsins í efstu deild. Um það er ekki nokkur spurning.“

ÍA og Keflavík mætast á Akranesi í undanúrslitum bikarkeppninnar um næstu helgi. Mun Skaginn vinna bikar á þessu tímabili?

„Já. Við ætlum okkur að gera það. En við þurfum að vinna tvo leiki í viðbót til að ná því. Þá kemur þetta gamla góða að það er bara hægt að vinna einn leik í einu. Við þurfum að vinna Keflavík á heimavelli. Við ætlum að vinna þann leik og fara í bikarúrslitaleik á Laugardalsvellinum. Ekki nokkur spurning,“ sagði Jóhannes Karl ennfremur þegar mbl.is tók hann tali. 

mbl.is