KA missti af þriðja sætinu

FH-ingar fagna fyrsta marki leiksins.
FH-ingar fagna fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og FH áttust við í lokaumferð Pepsi Max-deildar karla í dag á Greifavellinum á Akureyri. FH var fast í sjötta sæti deildarinnar fyrir leik og hafði að litlu að keppa. KA var í þriðja sætinu og gat haldið því með sigri. Tap KA myndi opna möguleika fyrir KR að ná þriðja sætinu af þeim.  

Leikurinn var nokkuð fjörugur og liðin sóttu á víxl án þess þó að skapa einhver almennileg færi. Eina mark fyrri hálfleiks kom eftir hornspyrnu FH. Jónatan Ingi Jónsson tók hornspyrnuna frá hægri og virtist Steinþór Már Auðunsson í marki KA alveg vera með boltann. Hann glopraði honum þó út höndum sér og Ólafur Guðmundsson var snöggur að kasta sér á boltann og pota honum inn í markið. Hinn trausti markvörður KA er víst mannlegur eftir allt saman. 

Eins og hálfleiksstaðan var í öðrum leikjum þá var KA enn í þriðja sætinu þegar seinni hálfleikur hófst í leikjum dagsins. 

Snemma í seinni hálfleiknum jafnaði KA metin. Nökkvi Þeyr Þórisson setti þá magnað skot upp í skeyrin frá vítateigshorni. FH svaraði strax í næstu sókn þegar Oliver Heiðarsson náði að vippa boltanum yfir Steinþór markvörð sem var kominn vel út á móti honum. FH leiddi því 2:1 og leikurinn enn mjög opinn.

KA-menn reyndu að jafna leikinn en ekkert gekk hjá þeim og smám saman tóku FH-ingar stjórnina þannig að heimamenn voru ekki líklegir til að ná sér í sigur. KA missti mann af velli þegar lítið var eftir af leiknum Dusam Brkovic fékk þá sitt annað gula spjald eftir sakleysislegt brot. KA átti þó síðasta orðið og náði að jafna leikinn úr vítaspyrnu. Elfar Árni var togaður niður í teignum og Hallgrímur Mar fór á vítapunktinn. Skoraði hann af öryggi og tryggði KA 2:2-jafntefli. KA hefði þó þurft að vinna leikinn til að halda þriðja sætinu þar sem KR vann Stjörnuna á sama tíma.  

Hallgrímur Mar skoraði sitt 11. Mark í sumar og gæti fengið einhvern skó fyrir afrekið. Leikmenn FH stóðu sig virkilega vel í leiknum og var gaman að sjá ungu leikmennina þeirra spila eins og reynslumiklir menn.  

KA-liðið virkaði ekki nógu kraftmikið miðað við hve mikið gæti verið undir fyrir það að ná þriðja sætinu. Bestu menn KA voru miðverðirnir Dusan Brkovic og Mikkel Qvist og hlýtur það að vera forgangsmál hjá KA-mönnum að halda þeim báðum.  

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

KA 2:2 FH opna loka
90. mín. Matthías Vilhjálmsson (FH) fer af velli
mbl.is