Ævintýraleg björgun í Keflavík

Leikmenn og stuðningsmenn ÍA fagna sigrinum skömmu eftir að Vilhjálmur …
Leikmenn og stuðningsmenn ÍA fagna sigrinum skömmu eftir að Vilhjálmur Alvar flautaði til leiksloka í Keflavík. mbl.is/Kris

ÍA heldur sæti sínu í úr­vals­deild­ karla í knatt­spyrnu, Pepsi Max-deild­ainni, með 3:2 sigri á HS Orku-vellinum í Keflavík í dag þrátt fyrir að hafa brennt af víti og lent 2:0 undir.

ÍA er með 21 stig eins og Keflavík en HK fellur með 20 stig. Fylkisliðið var þegar fallið. Skagamenn halda því sæti sínu í deildinni með því að vinna síðustu þrjá leikina í deildinni. Lygilegur endasprettur hjá liði sem illa gekk að safna stigum lengst af í sumar. 

Staðan var 1:0 fyrir Keflavík að loknum fyrri hálfleik eftir að Ástbjörn Þórðarson hamraði boltann efst í vinstra hornið með firnaföstu skoti. Markið virtist vera hálfgert kjaftshögg fyrir Skagamenn sem höfðu verið frískari í fyrri hálfleik en nýttu sér það ekki. Steinar Þorsteinsson brenndi af vítapsyrnu á 15. mínútu og skaut yfir markið. 

Þegar Keflavík komst í 2:0 virtist sem heilladísirnar væru ekki á bandi Skagamanna í dag. Marley Blair gaf fyrir frá vinstri og boltinn fór af Óttari Bjarna Guðmundssyni varnarmanni ÍA og í netið. 

En neistinn kviknaði hjá Skagamönnum á 67. mínútu þegar skot frá Alexander Davey utan teigs hafnaði í netinu hjá Keflavík eftir viðkomu í Keflvíkingi. Neistinn var ansi fljótt að stóru báli því ÍA jafnaði 2:2 á 71. mínútu. Varamaðurinn ungi Guðmundur Tyrfingsson skallaði í netið og fjölmargir og líflegir stuðningsmenn ÍA trylltust á pöllunum. Akurnesingar hafa upplifað flest sem hægt er að upplifa í knattspyrnunni hérlendis og þeir skynjuðu á pöllunum að nú væri eitthvað að gerast. 

Sigurmarkið kom svo á 75. mínútu. Keflvíkingar voru slegnir eftir mörk Skagamanna og sofnuðu á verðinum. Eftir hornspyrnu náði Sindri Snær Magnússon, fyrrverandi leikmaður Keflavíkur, að koma boltanum í netið eftir vandræðagang í vítateignum. Heldur betur dýrmætt mark því það tryggði ÍA áframhaldandi sæti í deildinni. Hefði leikurinn endað með jafntefli þá hefði ÍA fengið 19 stig og HK haldið sér uppi.  

ÍA fékk alls sautján hornspyrnu í leiknum og það kom að því að ein þeirra nýttist. 

Fögnuðurinn sem braust út í leikslok var ósvikinn. Skagamenn fögnuðu gríðarlega þegar leikmenn og stuðningsmenn sameinuðust í fagnarlátum. Stuðningsmenn Keflavíkur trúðu vart þessari atburðarás en þurftu ekki að hafa áhyggjur af sinni stöðu þegar fréttir bárust af stöðunni hjá Breiðabliki og HK.

Keflvíkingar eins og Skagamenn geta nú horft til undanúrslitaleiks liðanna í bikarkeppninni um næstu helgi. 

Brynjar Snær Pálsson, Christian Volesky og Elias Tamburini í fyrri …
Brynjar Snær Pálsson, Christian Volesky og Elias Tamburini í fyrri leik liðanna á Akranesi í sumar. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Keflavík 2:3 ÍA opna loka
90. mín. Leik lokið Leiknum er lokið. ÍA vinnur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert