Örlagaríkt fyrsta mark Sindra fyrir ÍA

Sindri Snær Magnússon fagnar marki með liðsfélögum sínum.
Sindri Snær Magnússon fagnar marki með liðsfélögum sínum. Ljósmynd/Skagafréttir

Sindri Snær Magnússon fyrrverandi leikmaður Keflavíkur kom ÍA til bjargar í Keflavík í dag og skoraði sigurmarkið í 3:2 sigri ÍA í lokaumferð Pepsí Max deildar karla í knattspyrnu. 

ÍA komst þar með upp fyrir HK og tryggði sér áframhaldandi keppnisrétt í efstu deild að ári. Skagamenn tóku sig til þegar staðan var orðin svört og unnu síðustu þrjá leikina í deildinni. 

„Great Escape. Þetta er frágengið og næst er það bikarleikurinn eftir viku,“ sagði Sindri Snær þegar mbl.is spjallaði við hann í Keflavík.  Hann sagði miklar tilfinningar fylgja því að bjarga sætinu í deildinni með jafn dramatískum hætti og raun bar vitni.

„Það er partý hjá okkur en bæði liðin gerðu það sem þau þurftu að gera til að halda sér í deildinni. Ég er smá hræður. Mér tókst einhvern veginn að klóra boltann inn og gleymdi mér í fagnaðarlátunum í framhaldinu. Í stöðunni 3:2 passaði ég mig bara á því að fara ekki yfir miðju. En gleðin er mikil núna.“

Sindri bendir á að hann hafði ekki skorað mark fyrir ÍA fyrr en í dag. Sá valdi heldur betur heppilegan tímapunkt til þess. „Þetta var draumi líkast. Maður ímyndaði sér í gær að maður myndi skora því maður vissi að hingað væru að koma fjórar rútur af Skaganum. Ég hef ekki skorað mark fyrir félagið hingað til og hef verið hjá ÍA í tvö og hálft ár. Það var heldur betur kominn tími á markið. Það var reyndar tekið eitt mark af mér í sumar en það er ágætt að hafa sparað þetta þar til núna,“ sagði Sindri og glotti. 

Atburðarásin hjá Skagamönnum var nánast eins og í Hollywood mynd. Liðið vann síðustu þrjá leikina í mótinu til að halda sér uppi. Jafn marga og það hafði unnið í fyrstu átján leikjunum. Í síðasta leiknum lenti liðið 2:0 undir á útivelli en snéri taflinu við með þremur mörkum á átta mínútna kafla. En í stöðunni 2:0 leit hins vegar út fyrir að heilladísirnar umtöluðu væri ekki á bandi ÍA í dag. ÍA brenndi af vítaspyrnu í stöðunni 0:0 og fékk á sig mark þar sem boltinn fór af leikmanni ÍA og í netið. Þetta virtist ekki ætla að verða þeirra dagur. 

„Já ég er alveg sammála þér. Mér fannst við eiga frábæran fyrri hálfleik fyrir utan það að við nýttum ekki færin okkar. Við áttum margar góðar stöður og fórum oft inn í teiginn hjá þeim en skoruðum bara ekki. Auk þess brenndum við af víti. Á móti fengum við mark á okkur þar sem ég held að hann (Ástbjörn) hafi fest boltann í samskeytunum. Það var svolítið sárt að fara inn í hálfleikinn með það á bakinu. Svo fengum við á okkur sjálfsmark í síðari þegar þeir fengu loksins sókn. Þá velti maður því fyrir sér hvort þetta væri búið. En við fengum smá heppnismark og minnkuðum muninn. Það gaf okkur heldur betur von og stúkan kveikti á sér aftur,“ sagði Sindri og vísar þar til stuðningsmanna ÍA sem voru afar líflegir á heildina litið þótt skiljanlega hafi verið dauft hafi yfir þeim í stöðunni 2:0. 

mbl.is