Óskar í Kópavoginum næstu fjögur árin

Óskar Hrafn Þorvaldsson og Halldór Árnason munu halda kyrru fyrir …
Óskar Hrafn Þorvaldsson og Halldór Árnason munu halda kyrru fyrir í Kópavoginum næstu árin. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við félagið. Halldór Árnason aðstoðarþjálfari hefur sömuleiðis skrifað undir nýjan samning til jafnmargra ára.

Óskar Hrafn og Halldór munu því þjálfa Blika út tímabilið 2025. Þeir mynduðu saman þjálfarateymi hjá Gróttu og komu liðinu úr 2. deild upp í úrvalsdeild á tveimur tímabilum áður en þeir færðu sig yfir til Breiðabliks haustið 2019.

Breiðablik á möguleika á því að vinna Íslandsmeistaratitilinn í dag þegar liðið fær nágranna sína í HK í heimsókn í lokaumferð úrvalsdeildarinnar.

Blikar eru þó í öðru sæti og þurfa því að treysta á hagstæð úrslit í leik Víkings úr Reykjavík, sem er í efsta sæti, gegn Leikni úr Reykjavík á sama tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert