Ótrúlegur endasprettur Skagamanna

ÍA bjargaði sér frá falli með glæsilegum endaspretti.
ÍA bjargaði sér frá falli með glæsilegum endaspretti. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Það áttu fáir von á öðru en að ÍA myndi falla niður í 1. deild er liðið tapaði 0:3 fyrir KA á útivelli í 19. umferð Pepsi Max-deild karla í fótbolta. ÍA var þá með tólf stig, fimm stigum frá öruggu sæti, og þrjár umferðir voru eftir.

Skagamenn hrukku hinsvegar í gang á lokakaflanum því liðið vann 3:1-heimasigur á Leikni í næsta leik og fylgdi því eftir með 5:0-heimasigri á Fylki í miklum botnslag.

Það virtist ætla að vera til einskis því ÍA lenti 0:2-undir á móti Keflavík í dag og var því á leiðinni niður. Þá sögðu Skagamenn hingað og ekki lengra.

Alexander Davey minnkaði muninn á 68. mínútu, tveimur mínútum síðar bætti Guðmundur Tyrfingsson við öðru marki ÍA og Sindri Snær Magnússon fullkomnaði magnaða endurkomu með marki á 75. mínútu.

Þar sem HK tapaði fyrir Breiðabliki var ljóst að ÍA heldur sæti sínu í efstu deild eftir magnaðan endasprett.

mbl.is