Spiluðum upp á stoltið

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals.
Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við áttum ekkert eftir nema að spila fyrir stoltið og gerðum það vel í dag,“ segir Heimir Guðjónsson, þjálfari Valsmanna, sem unnu öruggan 6:0 sigur á Fylki í Árbænum í lokaumferð úrvalsdeildar karla. Hann var því að vonum ánægður með spilamennsku síns liðs. „Þetta var fínn leikur og gott að enda tímabilið vel.“

Fyrir leik eygðu Valsmenn örlitla möguleika á þriðja sætinu eftirsótta, ef KA-menn og KR-ingar hefðu ekki náð góðum úrslitum úr sínum leikjum. Heimir segir Valsmenn lítið hafa hugsað um þann möguleika, en gerðu þó sitt besta til þess að grípa tækifærið hefði það gefist. „Já, en auðvitað er alltaf farsælast í þessum leik að geta treyst á sjálfan sig, en það hefði mjög mikið þurft að gerast. Við vorum því lítið að hugsa um það en við sýndum stolt,“ segir Heimir.

Heimir nýtti tækifærið og óskaði Arnari Gunnlaugssyni, þjálfara Víkings og Víkingum innilega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn, og sagði það hafa verið vel gert hjá þeim.

Heimir bætir við að Valsmenn muni setjast niður á næstunni og ræða hvernig hægt verði að gera betur á næstu leiktíð, en hann hyggst þjálfa liðið áfram á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert