Við erum búnir að gefa þeim öllum undir fótinn

Rúnar Kristinsson þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson þjálfari KR. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við gerðum leikmönnum grein fyrir hvað væri undir í dag og þeir áttuðu sig sjálfir á því,  eina sem við gátum gert sjálfir var að vinna leikinn svo þetta var skyldusigur fyrir okkur og þeir eru aldrei auðveldir,“  sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR eftir 2:0 sigur á Stjörnunni þegar liðin mættust í Garðabænum í dag í lokaumferð efstu deildar karla í fótbolta. 

„Við fórum varfærnislega inní leikinn, vildum  að vinna okkur inní hann og ætluðum okkur ekki um of snemma.  Hefðum þá getað misst tökin og fengið skyndisóknir Stjörnunnar með marki sem hefði gert allt tvöfalt erfiðara.  Við tækluðum þetta mjög vel, það var einhver taugatitringur í fyrri hálfleik og leikurinn lélegur hjá báðum liðum, mikið af mistökum í sendingum og lítið um færi.  Við vorum samt meira með boltann og áttum fullt af hornspyrnum og svoleiðis – eitt gott færi þegar Haraldur ver vel frá Óskari Erni en að öðru leiti var fyrri hálfleikur slakur.“  

Í hálfleik var FH að vinna KA fyrir norðan svo það var í höndum Vesturbæinga að vinna sinn leik til að ná þriðja sætinu í deildinni og þar með möguleika á Evrópusæti og Rúnar gerði liðinu grein fyrir því.  „Það var ágætt að koma inn í hálfleiki vitandi að FH var að vinna á Akureyri og geta tilkynnt strákunum það, við þyrftum þá bara eitt mark til að vinna leikinn og þá ættum við fjarlæga drauma um Evrópusæti.  Svo viljum við líka ná þriðja sæti frekar en fjórða eða fimmta svo sigur hjá okkur í dag og að KA misstígi sig þá erum í þriðja sæti, sem lýtur miklu betur út á pappírum fyrir félagið og okkur sjálfa.  Það er miklu skemmtilega heldur en að lenda í fimmta sæti.

KR setur stefnuna alltaf á efsta sætið en var þó spáð fjórða sætinu af þjálfara, fyrirliða og forráðamanns liðanna í deildinni.  „Við ætluðum, eins og KR gerir alltaf, að fara inn í mótið til að vinna hvort það sé deild eða bikar.  Við duttum snemma út úr bikarnum þegar við töpum fyrir Víkingum, sem er Íslandsmeistari í dag og frábært lið.   Í deildinni vorum við að glata stigum í lok leikja, oft í síðari hálfleik þegar við vorum með tögl og hagldir og héldum að við værum að landa sigri.  Þá fáum við á okkur mörk, gerum jafntefli og tapar stigum, sem við þú vilt ekki missa af.  Það verður allt að ganga upp, það verður að klára alla leiki hundrað prósent, þú verður að vera heppinn með meiðsli, leikbönn, dómgæslu stundum  og alls konar hluti en þegar upp er staðið þá töpuðum við aðeins of mörgum stigum í byrjun mótsins.  Mér finnst við hafa verið mjög góðir í seinni umferðinni og ekkert lið sem labbar yfir okkur.  Við tókum fjögur stig á  móti Blikum og Víkingar fjögur á móti okkur svo við endum þarna nokkrum stigum fyrir aftan þessi lið.  Við erum samt í þriðja sæti og ánægðir með það og ennþá ánægðari ef það færir okkur Evrópusæti,“ sagði Rúnar.

Nokkrir leikmenn KR eru komnir orðnir árinu eldri, til dæmis Óskar Örn Hauksson og Pálmi Rafn Pálmason þó þeir hafi staðið sína pligt eins og í allt sumar.  Þjálfarinn segir að farið verði yfir það og búið sé að undirbúa jarðveginn.   „Óskar skorar í dag og leggur annað mark upp.  Hann hefur held ég spilað næst flestar mínútur af leikmönnum í liðinu og Pálmi hefur líka spilað mjög mikið, svo að ég sé alveg heiðarlegur, meira en ég bjóst við þegar við fórum inní tímabilið.   Þessir strákar eiga alveg nóg eftir,  það minnkar kannski aðeins hraðinn og þeir lengur að jafna sig eftir leiki en við munum setjast niður með þeim eins og öllum, sem eru með samninga að renna út og ræða framhaldið.  Það verður vinna næstu tveggja vikna og við byrjum strax á mánudaginn á því.  Það er búið að gefa þeim öllum undir fótinn, hvernig við viljum gera þetta og þarf bara að fara semja,“  bætti þjálfarinn við.

mbl.is