„Við erum komnir á góðan stað“

Arnar Grétarsson á hliðarlínunni í dag.
Arnar Grétarsson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Það var nokkuð þungt yfir leikmönnum og þjálfurum KA eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn FH í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í dag. Fyrir leik var KA í 3. sæti deildarinnar en jafnteflið gerði það að verkum að KR komst upp fyrir KA. Hugsanlegt er að þriðja sætið í deildinni gefi KR leiki í Evrópukeppni og þar af leiðandi haug af peningum.  

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, endurnýjaði samning sinn við félagið í gær og eru Akureyringar mjög ánægðir með hans störf. Árangur KA í sumar er besti árangur félagsins frá 2004 en Arnar vildi sigur í dag og hann var ekki nógu ánægður með leikinn. 

„Við höfum oft verið betri en í dag. FH er búið að vera á góðu skriði og voru sterkir og kraftmiklir. Hugsanlega var spennustigið of hátt hjá okkur. Að því sögðu þá var nú FH ekki að skapa sér mikið og fyrra mark þeirra var bara slys. Steinþór gerir mistök en hann er búinn að vera frábær og einn af okkar bestu leikmönnum. Svo jöfnum við leikinn en fáum strax á okkur annað mark. Við hefðum átt að gera betur í því tilviki.

Því er ég hrikalega svekktur að hafa ekki náð að vinna þennan leik og eiga þá vonarglætu á að komast í Evrópukeppni. Hins vegar er ég gríðarlega stoltur þjálfari í dag. Strákarnir hafa náð góðum árangri og við höfum sýnt öllum að við erum komnir þangað að við getum gert eitthvað stórt. Metnaðurinn er það mikill að menn vilja meira og nú eru strákarnir inni í klefa sársvekktir með niðurstöðu dagsins. Það segir mér að við erum komnir á góðan stað. Það er eitthvað til að byggja á. Ég er bara drullufúll að vinna ekki en á sama tíma stoltur af strákunum. Við vorum bara ekki að spila nógu vel.“ 

Ertu sáttur við lokastöðu ykkar að lenda í fjórða sæti? 

„Nei það er ég ekki. Ég verð bara að vera heiðarlegur með það. Heilt yfir er ég gríðarlega sáttur með frammistöðu liðsins en ég vil meina að við eigum meira inni og við hefðum getað farið lengra. Líklega höfum við verið sjálfum okkur verstir í ansi mörgum leikjum.“ 

Þá eru það leikmannamálin. Þú verður áfram en hvernig er staðan á þeim þremur erlendu leikmönnum sem hafa verið í varnarlínunni. Þú vilt væntanlega halda þeim öllum. 

„Við eigum eftir að semja við þá alla. Mark Gundelach, Mikkel Qvist og Dusan Brkovic. Þeir eru allir frábærir leikmenn. Það þarf bara að ræða við þá og sjá hvað er hægt að gera. Vonandi náum við að landa meirihlutanum af þeim en það verður bara koma í ljós“ sagði Arnar að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert