Víkingur er Íslandsmeistari

Víkingar eru Íslandsmeistarar karla í knattspyrnu 2021 eftir sannfærandi sigur á Leikni úr Reykjavík í lokaumferð úrvalsdeildarinnar á Víkingsvellinum í dag, 2:0. Þetta er sjötti Íslandsmeistaratitill Víkinga og sá fyrsti í þrjátíu ár.

Víkingar voru með örlögin í eigin höndum því þegar flautað var til leikjanna sex í lokaumferðinni voru þeir með 45 stig gegn 44 stigum keppinautanna í Breiðabliki sem á sama tíma mættu HK og þurftu að treysta á að Víkingar myndu misstíga sig.

Víkingar voru án síns besta og reyndasta manns, Kára Árnasonar, sem tók út leikbann vegna gulra spjalda í leiknum í dag og þurfti því að sitja í áhorfendastúkunni.

Stuðningsmenn Víkings voru byrjaðir að syngja klukkutíma fyrir leik og spennan var rafmögnuð þegar Ívar Orri Kristjánsson flautaði til leiks. Víkingar tóku völdin á vellinum strax í byrjun en gekk illa að finna göt á þéttum Leiknismönnum sem mættu með fimm manna vörn og gott skipulag.

Víkingar sýndu hinsvegar af sér mikla þolinmæði og yfirvegun, héltu áfram að spila og sækja og uppskáru markið dýrmæta á 30. mínútu úr fyrstu marktilraun leiksins. Kristall Máni Ingason sendi boltann fyrir mark Leiknis frá hægri og Nikolaj Hansen reis hæst, skoraði með föstum skalla í jörðina og inn og Víkingar voru komnir yfir, 1:0.

Sextánda mark Hansens og hafi einhver vafi verið á því að hann yrði markakóngur deildarinnar í ár var það endanlega innsiglað með þessu marki. Kominn sex mörkum fram úr keppinautunum.

Þar með var ísinn brotinn og Víkingar fylgdu markinu eftir. Á 37. mínútu nýttu þeir sér slæma sendingu út úr vörn Leiknis og spiluðu sig laglega í gegnum hana hægra megin. Hansen renndi boltanum inn að markinu hægra megin þar sem Erlingur Agnarsson kom á ferðinni og lyfti boltanum snyrtilega upp í markhornið nær, 2:0.

Fjórða mark Erlings í fjórum leikjum eftir að hann skoraði ekki í fyrstu átján umferðum tímabilsins.

Hansen var svo enn ágengur við mark Leiknis á 41. mínútu þegar hann átti fastan skalla framhjá marki Leiknis eftir fyrirgjöf Atla Barkarsonar frá vinstri. Staðan var 2:0 í hálfleik og á sama tíma var staðan 0:0 hjá Breiðabliki og HK á Kópavogsvelli.

Seinni hálfleikurinn var afar tíðindalítill lengi vel og ekki eitt einasta markskot fram á 77. mínútu þegar Kwame Quee átti fast skot beint á Guy Smit í marki Leiknis. Víkingar voru hinsvegar með leikinn að mestu leyti í hendi sér.

Leiknir ógnaði aldrei marki Víkinga sem luku leiknum af miklu öryggi og undir gríðarlegri stemningu stuðningsmanna sinna sem voru búnir að kveikja á blysum í stúkunni áður en flautað var til leiksloka. Íslandsmeistaratitillinn er þeirra!

Víkingur R. 2:0 Leiknir R. opna loka
90. mín. 3 mínútur eftir - Víkingar eru uppbótartímanum frá Íslandsmeistaratitlinum.
mbl.is