Gylfi Þór fékk fyrstu Huldunæluna

Gylfi Þór Sigurpálsson tekur við Huldunælunni á Kópavogsvelli á laugardaginn.
Gylfi Þór Sigurpálsson tekur við Huldunælunni á Kópavogsvelli á laugardaginn. Ljósmynd/Baldur Kristjáns

Gylfi Þór Sigurpálsson var heiðraður sérstaklega á laugardaginn og tók fyrstur við nýrri viðurkenningu, Huldunælunni, sem veitt verður árlega dyggum stuðningsmanni knattspyrnuliða Breiðabliks í Kópavogi.

Það eru Blikaklúbburinn, stuðningsmannafélag Breiðabliks, og Blikar.is, stuðningsmannavefur meistaraflokka félagsins í knattspyrnu, sem standa að viðurkenningunni.

Frá þessu er greint á Blikar.is og þar kemur fram að viðurkenningin verði veitt fyrir einlægan og öflugan stuðning við meistaraflokka félagsins í blíðu og stríðu.

Þar kemur einnig fram að Gylfi hafi mætt á nánast alla leiki karla- og kvennaliða Breiðabliks síðan á sjöunda áratug síðustu aldar, eða í meira en hálfa öld.

Huldunælan er kennd við Huldu Pétursdóttur sem var um áratuga skeið öflugur bakhjarl og stuðningsmaður Breiðabliks en þrír synir hennar og Þórhalls Einarssonar, sem var í fyrsta landsliði Íslands árið 1946, þeir Einar, Hinrik og Þórarinn, léku með Breiðabliki í öllum flokkum á sínum tíma.

Ítarlega er fjallað í máli og myndum um afhendingu Huldunælunnar á Blikar.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert