Höskuldur var besti leikmaður deildarinnar

Höskuldur Gunnlaugsson var frábær með Blikum í sumar.
Höskuldur Gunnlaugsson var frábær með Blikum í sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði og hægri bakvörður Breiðabliks, var besti leikmaðurinn í úrvalsdeild karla í fótboltanum keppnistímabilið 2021 samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins.

Hann hafði þar naumlega betur í keppni við Kristin Jónsson, vinstri bakvörð KR-inga, en þeir urðu efstir og jafnir í M-einkunnagjöf Morgunblaðsins og fengu samtals 19 M hvor á keppnistímabilinu.

Höskuldur var hinsvegar valinn átta sinnum í lið umferðarinnar hjá blaðinu en Kristinn þrisvar og þar skildi á milli þeirra.

Höskuldur fór frekar rólega af stað en hann var kominn með átta M þegar tímabilið var hálfnað. Hann fékk hinsvegar ellefu M í síðari ellefu leikjum Breiðabliks en alls fékk hann þrívegis tvö M fyrir frammistöðu sína og þrettán sinnum eitt M.

Höskuldur var í nýrri stöðu sem hægri bakvörður en hann hefur aðallega leikið sem kant- eða miðjumaður á ferlinum. Hann var eftir sem áður í lykilhlutverki í sóknarleik Kópavogsliðsins og var þriðji markahæsti leikmaður þess í deildinni, ásamt tveimur öðrum, með sex mörk í 22 leikjum.

Nálægt því að vinna í annað sinn

Kristinn átti ekki síður gott tímabil með KR-ingum og var þeirra besti leikmaður. Eins og vanalega lék Kristinn stórt hlutverk í sóknarleik KR með sprettum sínum og spili upp vinstri kantinn.

Kristinn fékk níu M í fyrri umferðinni og tíu M í þeirri síðari, og rétt eins og Höskuldur fékk hann þrisvar tvö M og þrettán sinnum eitt M í leikjum Vesturbæjarliðsins. Hann skoraði sjálfur tvö mörk, bæði í sama leiknum, í 2:1 sigri gegn Leiknismönnum.

Litlu munaði að Kristinn yrði sigurvegari í einkunnagjöfinni í annað sinn á þremur árum en hann varð efstur í M-gjöfinni árið 2019.

Endasprettur hjá Jónatan

Jónatan Ingi Jónsson, hægri kantmaður FH-inga, varð í þriðja sæti í M-gjöfinni. Hann fékk 17 M samtals og átti frábæran endasprett en Jónatan fékk ellefu M í síðustu átta leikjum Hafnarfjarðarliðsins, þar af þrisvar tvö M. Fram að því hafði hann fengið sex M í fjórtán leikjum FH-inga.

M-upp­gjör tíma­bils­ins má lesa í heild sinni í Morg­un­blaðinu í dag þar sem er að finna úr­valslið árs­ins ásamt vara­mönn­um og fimm bestu leik­menn í hverju liði deild­ar­inn­ar sam­kvæmt M-gjöf­inni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »