Leikið í Vesturbæ ef veðurguðirnir bregðast

Leikmenn Vestra æfa á snævi þökktum Skeiðisvelli á Bolungarvík.
Leikmenn Vestra æfa á snævi þökktum Skeiðisvelli á Bolungarvík. Ljósmynd/Jón Hálfdán

Leikur Vestra og Víkings úr Reykjavík í undanúrslitum bikarkeppni karla, Mjólkurbikarsins, mun fara fram á Meistaravöllum í Vesturbæ ef ekki verður hægt að spila á Olísvellinum á Ísafirði um helgina. Þetta kom fram á Vísi.is í dag.

Leikurinn fer fram á laugardaginn kemur en veðurspáin fyrir vestan er afar slæm í vikunni og um helgina og því óvíst hvort leikurinn geti farið fram þar.

Í gær bárust fréttir af því að Vestramenn íhuguðu að flytja leikinn á Kaplakrikavöll í Hafnarfirði en ljóst er að fari hann fram á höfuðborgarsvæðinu þá mun hann fara fram í Vesturbæ.

„Við vorum mest hræddir um að það yrði það mikil rigning á föstudag og laugardag að Olísvöllurinn yrði á floti. Nú á að vera þurrt á miðvikudag og fimmtudag, og á laugardag líka, sem gefur okkur smá bjartsýni,“ sagði Samúel Samúelsson, stjórnarmaður hjá Vestra, í samtali við Vísi. 

„Við þurfum að gefa svar á fimmtudagskvöld um hvort við teljum að leikurinn geti farið fram á Ísafirði eða ekki. Ég geri svo ráð fyrir því að ef við teljum að leikurinn geti farið hér fram þá muni KSÍ fá mann til að taka völlinn út. Lokaákvörðunin er ekki okkar en við gerum það sem við getum svo hægt verði að spila hérna,“ bætti Samúel við.

mbl.is